Erfitt að vita hvar ég og allir aðrir standa

Ásgeir Sigurgeirsson er klár í slaginn fyrir sína aðra Ólympíuleika …
Ásgeir Sigurgeirsson er klár í slaginn fyrir sína aðra Ólympíuleika en hann keppir fyrstur Íslendinganna á laugardaginn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ásgeir Sigurgeirsson tekur þátt í sínum öðrum Ólympíuleikum á ferlinum þegar hann keppir í skotfimi með loftskammbyssu í Tókýó í Japan. Áður hafði hann tekið þátt á leikunum í Lundúnum árið 2012 þegar hann keppti í skotfimi með loftskammbyssu, þar sem hann lenti í 14. sæti forkeppninnar, og frjálsri skammbyssu, þar sem hann lenti í 32. sæti forkeppninnar.

Í viðtali við Morgunblaðið undir lok síðasta mánaðar greindi Ásgeir frá því að þjálfari hans hefði sagt honum að búið væri að úthluta öllum kvótasætum og hann því ekki á leiðinni á leikana í ár. Þegar ein þjóðin skilaði inn einu sæti fyrir keppanda fékk Ásgeir hins vegar keppnisrétt þar sem hann átti besta skorið í skotfimi hjá þeim þjóðum sem ekki höfðu fengið keppnisrétt í skotfimi með loftskammbyssu á leikunum.

Einstakt tækifæri

„Þetta er bara spennandi og ég hlakka til. Þetta er alveg einstakt tækifæri. Ég flaug út snemma á laugardaginn,“ sagði Ásgeir í samtali við Morgunblaðið. Þar sem hann var ekki búinn að keppa neitt í rúmt ár og búið að tjá honum að búið væri að fylla í kvótasætin fyrir leikana var Ásgeir lítið að æfa þegar hann komst skyndilega á leikana.

„Eftir að ég komst að því að ég væri kominn inn á leikana fór ég að æfa talsvert meira en ég var að gera. En ég passaði mig á að fara ekki of skarpt af stað. Það er bara búinn að vera góður stígandi í þessu hjá mér,“ sagði hann um hvernig undirbúningnum hefði verið háttað fyrir leikana.

Spurður um möguleika sína á leikunum í þetta skiptið, sagði hann: „Það er bara mjög erfitt að segja til um það, því það hafa nánast ekki verið haldin nein mót síðan í mars í fyrra og ég er ekki búinn að keppa neitt síðan þá. Þannig að það er erfitt að vita hvar ég stend, það er erfitt að vita hvar allir aðrir standa. Því fer maður inn í þetta mót í mikilli óvissu,“ sagði hann.

Viðtalið við Ásgeir má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert