Bækur Dr. Seuss fjarlægðar af eBay

Bækur Dr. Seuss verða ekki lengur til sölu á eBay.
Bækur Dr. Seuss verða ekki lengur til sölu á eBay. AFP

Bandaríski uppboðsvefurinn eBay mun ekki annast endursölu á sex bókum Dr. Seuss eftir að útgefandi þeirra hætti útgáfu þeirra vegna myndskreyt­inga sem þykja sýna kynþátta­for­dóma.

Wall Street Journal greindi frá þessu í gær en útgáfan Dr. Seuss Enterprises tilkynnti á þriðjudag að barnabækurnar yrðu ekki prentaðar að nýju. Í kjölfarið upphófst mikið kapphlaup á eBay um að eignast þessar bækur,  If I Ran the Zoo, Scrambled Eggs Super, McElli­got's Pool, On Beyond Zebra!, And To Think That I Saw It On Mul­berry Street og The Cat's Quizzer. 

Til að mynda hækkaði verðið sem fólk var reiðubúið til að greiða fyrir fyrstu prentun bókarinnar On Beyond Zebra! úr 14,99 bandaríkjadölum á mánudag í 810 dali á þriðjudag.

Talskona eBay segir í samtali við WSJ að unnið sé að því að taka bækurnar úr endursölu og það gæti tekið einhvern tíma. 

AFP

Bæk­ur Dr. Seuss, sem hét réttu nafni Thedor Seuss Geisel, hafa verið þýdd­ar á fjöl­mörg tungu­mál og eru gefn­ar út í yfir 100 lönd­um, meðal ann­ars í blindraletri. Þá hafa bæk­urn­ar verið gerðar að geysi­vin­sæl­um kvik­mynd­um, meðal ann­ars Trölli sem stal jól­un­um með Jim Car­rey í aðal­hlut­verki og teikni­mynd­inni Lorax. 

Þrátt fyr­ir vin­sæld­ir bók­anna hafa þær á síðustu árum verið gagn­rýnd­ar fyr­ir lýs­ing­ar á sögu­per­són­um sem ekki eru hvít­ar á hör­und. Í bók­inni And To Think That I Saw It on Mul­berry Street, er per­sóna sem á að vera kín­versk m.a. teiknuð með tvær lín­ur fyr­ir augu, hald­andi á prjón­um og skál af hrís­grjón­um og klædd skóm í japönsk­um stíl. 

AFP

Í bók­inni If I Ran the Zoo eru tveir afr­ísk­ir karl­menn teiknaðir ber­ir að ofan, skó­laus­ir og í pils­um úr strá­um. 

Seuss fæddist í Massachusetts árið 1904 og gaf út rúmlega 60 bækur um ævina. Margar þeirra eru vinsælustu barnabækur allra tíma, þar á meðal Kötturinn með höttinn og Hvernig Trölli stal jólunum. Seuss lést árið 1991. 

Árið 2017 sagði bókasafnsfræðingur í Cambridge í Massachusetts að ekki yrði þegið boð um að þiggja tíu Dr. Seuss-bækur frá þáverandi forsetafrú Bandaríkjanna, Melaniu Trump, vegna þess að bækurnar væru gegnsýrðar af rasískum áróðri, háðsmyndum og hættulegum staðalímyndum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert