Getur gegnt embætti til ársins 2036

Vladimír Pútín getur setið á forsetastóli til ársins 2036 samvkæmt …
Vladimír Pútín getur setið á forsetastóli til ársins 2036 samvkæmt nýrri stjórnarskrárbreytingu í Rússlandi. AFP

Vladímír Pútín, forseti Rússlands, undirritaði í dag stjórnarskrárbreytingu sem gerir honum heimilt að sitja í tvö kjörtímabil í viðbót. Hann getur þar með setið á forsetastóli til ársins 2036. 

Stjórnarskrárbreytingin hefur farið í gegnum allt ferlið, þ.a.e.s. farið fyrir stjórnarskrárdómstól, samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu, samþykkt af lögggjafarvaldinu og svo nú endanlega forsetanum sjálfum. Mikill meirihluti var fylgjandi breytingunum í þjóðaratkvæðagreiðslunni eða 78%. 

Hinn 68 ára gamli Pútín hefur nú þegar setið á valdastóli í meira en tvo áratugi. Nú hefur hann heimild til að sitja í forsetastólnum í 15 ár í viðbót, en þrjú ár eru eftir af yfirstandandi kjörtímabili og við bætast tvö sex ára kjörtímabil. 

Þegar kosið var um stjórnarskrárbreytingarnar í júlí á síðasta ári fengu rússneskir kjósendur aðeins valmöguleika um já eða nei fyrir allan pakkann af stjórnarskrárbreytingum. Pakkinn taldi 400 breytingar.

Kjörstaðir voru opnir í viku og sögðu stjórnvöld þá ráðstöfun gerða með tilliti til sóttvarnareglna. Það var þó harðlega gagnrýnt og sagt bjóða hættunni á kosningasvindli heim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert