Frakkar skelltu silfurliði Norðmanna

Timothey N'Guessan skýtur að marki Norðmanna í leiknum í kvöld.
Timothey N'Guessan skýtur að marki Norðmanna í leiknum í kvöld. AFP

Frakkar unnu allsannfærandi sigur á Norðmönnum í kvöld, 28:24, þegar brons- og silfurliðin frá síðasta heimsmeistaramóti karla í handknattleik mættust í fyrstu umferðinni í Egyptalandi.

Staðan var 13:13 í hléi eftir harðan slag í fyrri hálfleiknum. Frakkar náðu undirtökunum fljótlega í seinni hálfleik og voru komnir sex mörkum yfir, 26:20, þegar sex mínútur voru eftir af leiknum.

Norska liðið gafst þó ekki upp og minnkaði muninn í 26:23 en átti ekki möguleika á að ógna Frökkunum frekar á lokamínútunum.

Noregur: Sander Sagosen 10, Bjarte Myrhol 3, Magnus Jondal 3, Petter Overby 2, Harald Reinkind 2, Goran Sogard Johannessen 2, Kristian Bjornsen 1, Kent Robin Tonnesen 1.

Frakkland : Kentin Mahe 9, Nedim Remili 4, Hugo Descat 4, Timothey N’Guessan 4, Valentin Porte 2, Luc Abalo 2, Ludovic Fabregas 2, Luka Karabatic 1.

Frakkar og Svisslendingar eru því með 2 stig hvor þjóð í E-riðlinum en Norðmenn og Austurríkismenn eru án stiga. Frakkland mætir Austurríki á laugardaginn og Noregur leikur við Sviss. Þrjú lið úr þessum riðli fara í milliriðil með þremur liðum úr riðli Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert