Mér líður bara vel hérna

Elín Klara Þorkelsdóttir og Sara Odden verjast Söru Dögg Hjaltadóttur …
Elín Klara Þorkelsdóttir og Sara Odden verjast Söru Dögg Hjaltadóttur í leiknum í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari Vals, var að vonum sáttur eftir sigur liðsins á Haukum, 28:19, í undanúrslitum bikarkeppni kvenna í handbolta í Laugardagshöllinni í kvöld.

„Ég er bara gríðarlega ánægður með mitt lið, mér fannst við spila frábærlega. Við undirbjuggum okkur vel enda hafa Haukarnir verið að bæta sig mikið í allan vetur, með þrjá útlendinga og Elínu Klöru sem er einn allra besti leikmaðurinn í þessari deild. Varnarleikurinn okkar var mjög góður, við náðum að þétta vel á Elínu og svo fannst mér uppstillti sóknarleikurinn okkar góður.“

Um miðjan fyrri hálfleik læstu Valskonur vörninni algjörlega og voru Haukar í miklum vandræðum með að skora eftir það. Það lagði grunninn að sigrinum sem að lokum varð nokkuð þægilegur.

„Við byrjuðum vel en svo vorum við að tapa Elínu svolítið. Við vorum ekki að ná að tvídekka hana og hún er bara það öflug maður á mann að maður þarf helst alltaf að vera með tvo leikmenn á móti henni. Við fórum þess vegna bara að þétta betur og stíga betur gegn Söru Odden, þá small vörnin og hraðaupphlaupin fylgdu með.“

Valur lék án bæði Morgan Marie Þorkelsdóttur og Söru Sifjar Helgadóttur í leiknum en það virtist ekki hafa mikil áhrif.

„Við bara þjöppum okkur saman. Við erum með breiðan og góðan hóp, bæði eldri og reyndari stelpur en líka yngri stelpur sem eru að spila í þriðja flokki og fleira. Það er mikil breidd í okkar hóp og kvennaboltinn í Val blómstrar. Við erum með fimmta, fjórða, þriðja og meistaraflokk í bikarúrslitum svo starfið er frábært og við erum mjög stolt af þessu.“

Ágúst mun því koma í þriðja sinn í Laugardalshöllina í þessari viku á laugardaginn en á sunnudaginn var þjálfaði hann íslenska karlalandsliðið í leik gegn Tékkum.

„Mér líður bara vel hérna. Það er gaman að þessu. Það verður gaman að sjá hvort liðið við fáum, ÍBV er auðvitað feykilega vel mannað lið og hefur verið mjög sannfærandi á tímabilinu á meðan Selfoss hefur verið pínu spútnik lið. Það verður spennandi að sjá hvernig sá leikur mun þróast.“

Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari Vals.
Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari Vals. Ljósmynd/Kristinn Steinn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert