Fleiri en 250.000 dauðsföll í Bandaríkjunum

Heilbrigðisstarfsmenn í Houston í Texas sinna sjúklingi sem veikur er …
Heilbrigðisstarfsmenn í Houston í Texas sinna sjúklingi sem veikur er af Covid-19. AFP

Nú hafa fleiri en 250.000 fallið frá vegna Covid-19 í Bandaríkjunum, samkvæmt nýjustu tölum frá Johns Hopkins-háskóla. Þær sýna fram á 250.029 dauðsföll. Fréttirnar berast á sama tíma og víða um Bandaríkin greinist metfjöldi smitaðra en ríkisstjórn Bandaríkjanna virðist ekki vera að ná tökum á faraldrinum.

Donald Trump Bandaríkjaforseti neitar enn að viðurkenna sigur Joes Bidens í forsetakosningunum þar vestra en Biden sagði á dögunum að „fleiri gætu dáið“ ef áfram yrði komið í veg fyrir valdaskipti. 

Rúmlega 11 milljónir Bandaríkjamanna hafa smitast í faraldrinum en svo hár hefur smitfjöldinn ekki verið í nokkru öðru landi. Einnig hafa flestir látist úr Covid-19 í Bandaríkjunum. Þjóðin er á meðal þeirra verst settu hvað varðar dánartíðni. 

Erfiður vetur gæti verið fram undan

Undanfarnar tvær vikur hafa fleiri en 100.000 smitast daglega í Bandaríkjunum. Aukning í daglegum smitfjölda hefur orðið í nánast hverju einasta ríki Bandaríkjanna en staðan er sérstaklega slæm í Miðvesturríkjunum. 

Fyrr í dag tilkynntu embættismenn um lokun opinberra skóla í New York eftir að 3% borgarbúa höfðu greinst smitaðir. 

Bandaríkjamenn, eins og fleiri þjóðir, binda miklar vonir við tvö bóluefnanna sem hafa tilkynnt um afar jákvæðar niðurstöður rannsókna. Bólusetning er þó enn ekki í sjónmáli og þarf heimsbyggðin líklega að bíða í nokkra mánuði eftir henni. 

Sérfræðingar hafa varað við því að Bandaríkin gætu staðið frammi fyrir erfiðum vetri ef ekki verði gripið til aðgerða víðs vegar um Bandaríkin. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert