Hið nýstofnaða tryggingafélag Ösp líftryggingarfélag hf. hyggst hefja starfsemi á næstu misserum en félagið sótti nýlega um starfsleyfi hjá Fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins eru stærstu hluthafar Aspar þeir Baldvin Arnar Samúelsson og Smári Ríkarðsson sem hafa um árabil rekið vátryggingamiðlunarfélagið Tryggja.

Aðrir hluthafar eru m.a. Helgi Anton Eiríksson, fyrrum forstjóri Iceland Seafood International, Guðmundur Hjaltason endurskoðandi, Ólafur Friðrik Gunnarsson fjárfestir og Ólafur Johnson, forstjóri O. johnson & Kaaber, en þeir standa að baki félaginu eignarhaldsfélaginu Reklar eignir ehf.

Einnig eru Þorvaldur E. Sigurðsson, fyrrum framkvæmdastjóri hjá Orkuveitunni, og Egill Sigurðsson, eigandi og forstjóri A4, hluthafar í félaginu.

Ösp hyggst bjóða upp á líf- og persónutryggingar með fjölbreyttu vöruframboði og styðjast við stafrænar lausnir. Framkvæmdastjóri Aspar er Elmar Hallgríms Hallgrímsson. Félagið auglýsti eftir tveimur lykilstjórnendum um nýliðna helgi.