Sleppa við refsingu eftir slagsmál á æfingu

Antonio Rüdiger hljóp kapp í kinn og var rekinn af …
Antonio Rüdiger hljóp kapp í kinn og var rekinn af æfingu Chelsea. AFP

Thomas Tuchel, knattspyrnustjóri Chelsea, segir að alvarlegt mál sem kom upp á æfingu liðsins á sunnudaginn hafi verið afgreitt á mjög fagmannlegan hátt og hrósar leikmönnunum sem áttu í hlut fyrir hvernig þeir tóku á því.

Það voru varnarmaðurinn þýski Antonio Rüdiger og markvörðurinn spænski Kepa Arrizabalaga sem áttu í hlut en þeir lentu í harkalegu návígi á æfingunni og ruku saman í kjölfarið. Skilja þurfti liðsfélagana að og Rüdiger var rekinn af æfingunni.

Tuchel sagði á fréttamannafundi í dag að um alvarlegt atvik hefði verið að ræða en engin eftirmál yrðu af því.

„Okkur tókst að róa þá strax. Svona lagað getur alltaf gerst því á æfingu eru allir í baráttuhug. Þeir ræddu málið, gerðu út um hlutina og afgreiddu það algjörlega. Þeir leystu það á heiðarlegan og auðmjúkan hátt og það þarf ekki grípa til frekari refsinga,“ sagði Tuchel.

Daginn áður fékk Chelsea óvæntan skell gegn WBA, 2:5, og beið þar með sinn fyrsta ósigur undir stjórn Þjóðverjans sem var ósigraður í fjórtán leikjum í öllum mótum eftir að hann tók við starfinu af Frank Lampard.

Chelsea mætir Porto á útivelli annað kvöld í Meistaradeild Evrópu en sá leikur fer reyndar fram í Sevilla á Spáni, rétt eins og seinni leikur liðanna í næstu viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert