Eins og að endurnýja hjúskaparheitin

Frá Vestmannaeyjum. Þar hefur nú verið myndaður meirihluti.
Frá Vestmannaeyjum. Þar hefur nú verið myndaður meirihluti. mbl.is/Brynjólfur Löve

Oddvitar Fyrir Heimaey og Eyjalistans eru bjartsýnir á áframhaldandi meirihlutasamstarf flokkanna tveggja í Vestmannaeyjum en samningur um það var undirritaður fyrr í dag. Að sögn Páls Magnússonar, oddvita Fyrir Heimaey, voru allir sammála um að Íris Róbertsdóttir, sem sat í þriðja sæti lista Fyrir Heimaey, skyldi halda áfram sem bæjarstjóri. 

„Þetta er að mörgu leyti áframhald á þeirri stefnu sem við höfum verið að reka síðustu fjögur árin þar sem áherslan er á fjölskyldu og fræðslumál að miklu leyti og uppbyggingu innviða og þjónustu við íbúa Vestmannaeyjabæjar,“ segir Njáll Ragnarsson, oddviti Eyjalistans, í samtali við mbl.is. 

Páll segist ánægður með niðurstöðuna. 

„Við erum mjög sátt með þetta. Þetta verður þá framhald af því góða og árangursríka samstarfi sem verið hefur síðustu fjögur árin og felur í sér góð fyrirheit næstu fjögur.“

Aðspurður segir hann að það hafi ekki verið erfitt að komast að niðurstöðu um áframhaldandi samstarf. 

„Þetta gekk hratt og örugglega fyrir sig í jákvæðum anda.“

Frá undirritun samningsins sem fram fór um klukkan ellefu í …
Frá undirritun samningsins sem fram fór um klukkan ellefu í morgun. (f.v.) Helga Jóhanna Harðardóttir (E), Njáll Ragnarsson (E), Íris Róbertsdóttir (H), Páll Magnússon (H) og Jóna Sigríður Guðmundsdóttir (H).

Sátt ríki um verkaskiptinguna

Er um að ræða fyrsta meirihlutasamstarfið sem samþykkt hefur verið eftir sveitarstjórnarkosningarnar, ef frá eru talin þau sveitarfélög þar sem hreinn meirihluti náðist. Njáll segir að auðvitað hafi flokkarnir þurft að ræða ákveðin atriði en að áherslur flokkanna rími vel saman.

„Við erum búin að vinna að þessari stefnu síðastliðin fjögur ár svo þetta var svolítið eins og að endurnýja hjúskaparheitin. Við vorum ekki á neinum byrjunarreit, við byggðum þetta á góðum grunni og gáfum okkur góðan tíma í þetta til þess að vera alveg klár á því hvernig við förum í þetta verkefni, hvernig við forgangsröðum þeim og svo framvegis.“

Eruð þið sátt við að Íris haldi áfram sem bæjarstjóri? 

„Við erum sátt við þessa verkaskiptingu. Við höfum unnið þetta mjög vel saman, Íris og okkar fulltrúar. Íris hefur að öllu leyti staðið sig vel sem bæjarstjóri. Við treystum henni fullkomlega til þess að halda því áfram.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert