Fjögur stangarskot KA sem þurfti víti til að vinna

Steven Lennon með boltann í kvöld.
Steven Lennon með boltann í kvöld. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

KA vann ótrúlegan 1:0-sigur á FH á Dalvíkurvelli í Bestu deild karla í knattspyrnu í kvöld.

Fyrri hálfleikurinn var frekar bragðdaufur en Nökkvi Þeyr Þórisson sóknarmaður KA átti tvær bestu tilraunir hans. Eftir tæpan hálftíma fékk hann boltann í teignum frá Hallgrími Mar Steingrímssyni og átti skot í þverslá. Einhverjir KA-menn vildu meina að boltinn hafi verið inni en svo var klárlega ekki. Nokkrum mínútum síðar fékk Nökkvi boltann svo frá Bryan Van Den Bogaert rétt fyrir utan teig, sneri og lét vaða en Gunnar Nielsen varði virkilega vel frá honum.

Nökkvi hélt áfram að ógna í seinni hálfleik en strax á 49. mínútu fékk hann boltann í teig FH og smellti honum í innanverða nærstöngina. Þriðja stangarskot KA kom svo eftir rúmar 70 mínútur en þá smellti Van Den Bogaert boltanum í þverslánna frá vinstra vítateigshorni. Minnstu mátti þar muna að hann hefði skorað eitt af mörkum tímabilsins. Fjórða stangarskot KA kom svo þegar fimm mínútur voru til leiksloka. Ívar Örn Árnason átti þá skalla í slá eftir hornspyrnu en Dusan Brkovic fylgdi á eftir úr algjöru dauðfæri. Ekkert virtist geta komið í veg fyrir að fyrsta markið kæmi þar en Haraldur Einar Ásgrímsson bjargaði á marklínu á ótrúlegan hátt.

Í uppbótartíma fékk KA svo vítaspyrnu þegar Vuk Oskar Dimitrijevic braut á Nökkva sem hann skoraði sjálfur af miklu öryggi úr og KA fór með sigur af hólmi. Sanngjarn en torsóttur sigur KA því staðreynd.

KA 1:0 FH opna loka
90. mín. KA fær víti VÍTI! KA FÆR VÍTI!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert