Ávanabindandi að sigra

Thomas Tuchel, knattspyrnustjóri Chelsea.
Thomas Tuchel, knattspyrnustjóri Chelsea. AFP

Thomas Tuchel, knattspyrnustjóri Evrópumeistara Chelsea, segir að tilfinningin sem fylgi því að vinna leiki og titla sé ávanabindandi.

„Það jafnast ekkert á við að hafa trú á verkefninu. Ég komst í úrslitaleikinn tímabilið á undan og fannst sem það væri stórt afrek,” sagði Tuchel á blaðamannafundi í gær.

Chelsea vann Manchester City í úrslitum Meistaradeildar Evrópu á síðasta tímabili og tímabilið á undan stýrði Tuchel París Saint-Germain, sem tapaði þá fyrir Bayern München.

„Það var þvílíkur munur á því að taka ekki þessi síðustu skref, en þegar þú tekur þau stenst ekkert samanburð. Þetta breytir einhverju fyrir alla sem eiga hlut að máli. Það mikilvægasta er að líta ekki um öxl og halda í tilfinninguna og hungrið.“

Titilvörn Chelsea hefst í kvöld þegar liðið fær Rússlandsmeistara Zenit frá Sankti Pétursborg í heimsókn. Tuchel hlakkar til að hefja leik.

„Þetta er ávanabindandi, þessi íþrótt snýst um að vinna af því að það breytir andrúmsloftinu og tilfinningu manns ásamt því að auka sjálfstraust manns.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert