„Stuðningsmennirnir björguðu þessu móti“

Bjarki Már Elísson hleypur inn á keppnisvöllinn í Gautaborg.
Bjarki Már Elísson hleypur inn á keppnisvöllinn í Gautaborg. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bjarki Már Elísson sagði leikmenn Íslands hafa verið búna að sætta sig við að komast ekki áfram í átta liða úrslit HM 2023 í handknattleik eftir tapið gegn Svíþjóð í milliriðli 2 á föstudagskvöld.

Í kvöld vann Ísland góðan endurkomusigur, 41:37, gegn Brasilíu og hafa bæði lið því lokið leik á HM.

Við vissum fyrir leikinn að við værum út úr þessari keppni en við vildum enda þetta á sigri. Við byrjuðum hræðilega í dag en unnum leikinn og gerðum allavega það sem við gátum, svo sjáum við hvar við endum.

En auðvitað erum við hundfúlir að fara út úr þessu móti núna en maður er búinn að taka það svekkelsi út, það var eiginlega bara tekið út eftir Svíaleikinn. Það er bara áfram veginn,“ sagði Bjarki Már í samtali við mbl.is eftir leik.

Einhver þvæla að hafa þessa stuðningsmenn

Hann sagði það ánægjulegt að hafa náð góðri endurkomu fyrir íslensku stuðningsmennina.

„Það var geðveikt. Það var frábær stemning. Að hafa þessa stuðningsmenn er náttúrlega bara einhver þvæla, hvað þetta er skemmtilegt með þá í stúkunni.

Þeir eiginlega björguðu þessu móti fyrir okkur. Maður myndi henda þessu móti strax úr minningabankanum ef það væri ekki fyrir stuðningsmennina.“

Stuðningsmenn Íslands létu vel í sér heyra sem endranær.
Stuðningsmenn Íslands létu vel í sér heyra sem endranær. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þurfum fyrst að tryggja okkur á EM

Næsta stórmót fer fram í Þýskalandi að ári, EM 2024. Bjarki Már sagði leikmenn ekki komna með hugann þangað.

„Við erum náttúrlega atvinnumenn í handbolta þannig að við erum að fara til okkar félagsliða núna, við þurfum að sinna okkar skyldum þar og reyna að gera vel.

En jú, auðvitað hlakkar maður alltaf til þess að spila með landsliðinu. Ég held að við eigum eftir að tryggja okkur þangað inn samt, við byrjum á því og svo getur maður farið að hlakka til.“

Hugsaði bara um að drulla boltanum í netið

Bjarki Már skoraði síðasta mark leiksins, sitt níunda í leiknum, og skákaði þar með Kristjáni Erni Kristjánssyni, sem skoraði átta mörk í leiknum. Bjarka Má var ekki kunnugt um að hafa tekið fram úr Kristjáni Erni undir blálokin og orðið þar með markahæstur.

„Nei, ég hafði ekki hugmynd um það. Við vorum bara búnir að tala um það í leikhléinu að ná hverju einasta marki inn af því að markatalan gæti mögulega skipt máli.

Það eina sem ég hugsaði var því að drulla boltanum í netið og reyna að stækka muninn,“ sagði hann að endingu í léttum tón í samtali við mbl.is.

Bjarki Már fagnar marki í kvöld.
Bjarki Már fagnar marki í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert