Ekki einhver sem er hættulegur samfélaginu

Guðbrandur Guðbrandsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn, segir að áhersla sé lögð á að …
Guðbrandur Guðbrandsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn, segir að áhersla sé lögð á að “ljúka málinu“. Enginn hamagangur sé þó hjá lögreglu enda málið viðkvæmt þegar börn eiga í hlut. mbl.is/Árni Sæberg

Stoðdeild ríkislögreglustjóra leitar enn að Kehdr-fjölskyldunni, sex manna fjölskyldu frá Egyptalandi sem til stendur að vísa úr landi en hún hefur verið í felum í viku.

Guðbrandur Guðbrandsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá stoðdeildinni, segir málið í vinnslu en að þó sé enginn hamagangur hjá lögreglunni. „Við erum að leita að sex manna fjölskyldu með fjögur börn. Það er ekki eins og við séum að eltast við einhvern sem er hættulegur samfélaginu.“ Þó sé áhersla lögð á að ljúka málinu. „Þetta er eitthvað sem verður að gerast.“

Aldrei áður hefur fjölskylda farið í felur undan lögreglu, en Guðbrandur segir þó hafa komið fyrir að einstaklingar geri það.

Á annað hundrað falskra ábendinga

Brottvísun fjölskyldunnar hefur víða verið harðlega mótmælt. Eftir að lögregla lýsti formlega eftir fjölskyldunni og óskaði eftir ábendingum um ferðir þeirra, hefur fjöldi fólks hvatt til þess að  lögreglu séu sendar falskar ábendingar í því skyni að villa um fyrir og tefja störf hennar.

Aðspurður segist Guðbrandur telja að falskar ábendingar séu á annað hundrað. Hann segir að vissulega tefji slíkar ábendingar fyrir og taki frá starfsmönnum tíma sem nýta mætti í annað, en að starfsmenn deildarinnar séu þó fljótir að vinsa úr þeim. 

Spurður hvort fólk geti lent í vandræðum fyrir að senda inn falskar upplýsingar og villa um fyrir lögreglu, segir Guðbrandur að slíkt sé ekki á borði stoðdeildar. „En það verður hver og einn að gera upp við sig hvernig hann vill spila með.“

Börnin fjögur í Kehdr-fjölskyldunni sem vísa á úr landi.
Börnin fjögur í Kehdr-fjölskyldunni sem vísa á úr landi. Ljósmynd/Sema Erla Serdar
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert