Ritaði nafn sitt á spjöld sögunnar í nótt

Curry í leiknum í nótt.
Curry í leiknum í nótt. AFP/Ezra Shaw

Steph Curry, leikmaður Golden State Warriors í NBA-deildinni í körfubolta náði ansi merkilegu afreki í leik liðsins gegn Memphis Grizzlies í úrslitakeppni deildarinnar í nótt.

Undir lok fyrri hálfleiks setti Curry niður þriggja stiga körfu sem telst vart frásögu færandi á þeim bænum. Það sem var merkilegt við þessa körfu var það að þetta var 500. þriggja stiga karfan sem hann setur niður í úrslitakeppni NBA-deildarinnar. 

Curry er sá eini í sögunni sem hefur náð þessu afreki en næstur á listanum er LeBron James með 432 þriggja stiga körfur. Liðsfélagi Curry til margra ára hjá Golden State, Klay Thompson er svo þriðji með 405.

Fyrr á tímabilinu tók Curry fram úr Ray Allen yfir flestar þriggja stiga körfur í sögu deildarinnar. Hann skoraði einnig flestar þriggja stiga körfur á þessu tímabili, í sjöunda sinn sem hann gerir það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert