Stór nöfn ekki í þýska hópnum eftir vonbrigðin á HM

Ilkay Gündogan er einn þeirra sem Hansi Flick valdi ekki …
Ilkay Gündogan er einn þeirra sem Hansi Flick valdi ekki í landsliðshópinn. AFP/Paul Ellis

Hansi Flick, þjálfari þýska karlalandsliðsins í knattspyrnu, hefur tilkynnt hópinn sem mætir Perú og Belgíu í vináttuleikjum í komandi landsleikjaglugga.

Flestar Evrópuþjóðir munu leika í undankeppi Evrópumótsins sem fer fram á næsta ári, en þar sem mótið mun fara fram í Þýskalandi hefur liðið þegar tryggt sér þátttökurétt.

Þýska liðið olli miklum vonbrigðum á HM í Katar í desember en liðið komst ekki upp úr riðlinum. Ásamt Þýskalandi voru Japan, Spánn og Kosta Ríka í riðlinum en Japan og Spánn fóru áfram.

Þar sem að Þýskaland spilar einungis vináttuleiki í komandi glugga virðist Flick ætla að nýta tækifærið og gefa minna þekktum leikmönnum séns með landsliðinu. Menn eins og Antonio Rüdiger, Ilkay Gündogan, Thomas Müller, Leroy Sane og Niklas Süle eru ekki í hópnum en þeir hafa allir verið lykilmenn í landsliðinu undanfarin ár.

Í hópnum eru fimm nýliðar, þeir Josha Vagnoman, Mergim Berisha, Marius Wolf, Felix Nmecha og Kevin Schade. Þá snúa þeir Bernd Leno, Timo Werner, Emre Can og Florian Wirtz allir aftur í hópinn.

Þá verður Joshua Kimmich fyrirliði en Manuel Neuer sem hefur verið fyrirliði undanfarin ár er frá vegna meiðsla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert