Sturgeon: Ekki nóg gert síðan í París

Nicola Sturgeon, forsætisráðherra Skotlands, og Ólafur Ragnar Grímsson, stjórnarformaður Arctic …
Nicola Sturgeon, forsætisráðherra Skotlands, og Ólafur Ragnar Grímsson, stjórnarformaður Arctic Circle og fyrrverandi forseti Íslands, í pallborði ráðstefnunnar í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Heimsbyggðin hefur ekki gert nóg til þess að uppfylla skilyrði Parísarsamkomulagsins frá árinu 2015. 

Þetta sagði Nicola Sturgeon, forsætisráðherra Skotlands, í ræðu sinni á Arctic Circle-ráðstefnunni um málefni Norðurslóða, sem fram fer í Hörpu þessa dagana. 

Sturgeon segir að meira verði að gera ef ná á markmiðum heimsbyggðarinnar um hitastig heimsins. 

Eftir um tvær vikur fer fram COP26-loftslagsráðstefna Sameiðu þjóðanna í Glasgow í Skotlandi. 

Sturgeon segir að það verði stærsti samráðsvettvangur um hnattræna hamfarahlýnun frá því að leiðtogar þjóða heimsins komu saman í París árið 2015. 

Glasgow er ein vagga iðnbyltingarinnar, eins og Sturgeon segir sjálf, og því segir hún táknrænt að ráðstefnan fari fram þar í borg, þar sem upphaf hnattrænnar hlýnunnar er gjarnan miðað við iðnbyltinuna á 18. og 19. öld. 

Jeppe Kofod, utanríkisráðherra Danmerkur, flutti ræðu á ráðstefnunni í dag …
Jeppe Kofod, utanríkisráðherra Danmerkur, flutti ræðu á ráðstefnunni í dag og undirstrikaði mikilvægi samstarfs milli þeirra ríkja, sem eiga hagsmuna að gæta á Norðurslóðum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tók undir með Katrínu

Auk þess sem hún nýtti tækifærið til þess að hrósa Barnahúsi Barnaverndarstofu, snerti Sturgeon í ræðu sinni á mikilvægi þess að vernda strjálbýlustu svæði norðurskautsins. Sagði hún að 96% flatarmáls Skotlands geti talist strjálbýlt, sem sé á pari við mörg lönd á Norðurslóðum. 

Þannig sagði hún mikilvægt að lönd eins og Skotland, Grænland, Ísland og fleiri snúi bökum saman og læri hvert af öðru að vernda náttúru á strjálbýlum svæðum. 

Sturgeon, sem ávarpaði Arctic Circle-ráðstefnuna fyrst árið 2016, vísaði til ræðu Katrín Jakobsdóttur forsætisráðherra frá því fyrr í dag. Tók hún þannig undir með Katrínu um að bráðnun sífrera sé gríðarlegt vandamál á Norðurslóðum, þar sem metangas stígur upp í andrúmsloftið þegar sífreri bráðnar. Sagði hún að þetta sé vandamál sem oft gleymist í umræðu um hnattræna hlýnun. 

Einnig undirstrikaði Sturgeon mikilvægi Norðurslóða og sagði að hlýnun um tvær gráður á heimsvísu geti þýtt hækkun meðalhita á Norðurslóðum því sem nemur þremur eða fjórum gráðum. 

Arctic Cirle-ráðstefnan, sem jafnan hefur verið haldin ár hvert í Hörpu frá árinu 2016, er stærsta ráðstefnan á sviði loftslagsmála, sem haldin hefur verið síðan heimsfaraldur kórónuveiru skall á. 

Þetta fullyrti Ólafur Ragnar Grímsson, stjórnarformaður Arctic Circle og fyrrverandi forseti Íslands, í dag þegar hann flutti opnunarávarp sitt. 

„Gott fólk, okkur tókst það,“ sagði hann og uppskar lófatak viðstaddra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert