Gekk af velli eftir að hafa orðið fyrir kynþáttaníði

Mouctar Diakhaby hér í baráttunni við Luis Suárez á dögunum.
Mouctar Diakhaby hér í baráttunni við Luis Suárez á dögunum. AFP

Mouctar Diakhaby, franskur varnarmaður spænska knattspyrnuliðsins Valencia, gekk af velli í leik liðsins gegn Cádiz í dag eftir að hann sagðist hafa orðið fyrir kynþáttafordómum. Samherjar hans fylgdu honum til búningsklefa.

Eftir um hálftíma leik lét Diakhaby dómara leiksins vita af því að hann hefði orðið fyrir kynþáttafordómum. Diakhaby uppskar þó aðeins gult spjald sjálfur og gekk því af velli.

Aðrir leikmenn Valencia fylgdu honum en Diakhaby ákvað sjálfur að halda áfram leik að um fimm mínútum liðnum og hvatti samherja sína til þess að gera slíkt hið sama, sem þeir og gerðu.

Í yfirlýsingu frá Valencia segir að félagið standi þétt við bakið á Diakhaby og að það sé andsnúið öllum tegundum kynþáttaníðs. Það hafi orðið fyrir vonbrigðum að engum hafi verið refsað vegna atviksins meðan á leik stóð.

Félagið hafi ekki beðið leikmenn um að snúa aftur á völlinn en þeir hafi ákveðið það eftir að dómarinn lét þá vita af afleiðingunum af því að halda ekki leik áfram, þ.e. að Cádiz yrði gefinn sigurinn.

Valencia sagði einnig í yfirlýsingunni að félagið treysti því að málið yrði rannsakað til hlítar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert