Ísak stimplaði sig rækilega inn

Ísak Bergmann Jóhannesson í leik með íslenska A-landsliðinu.
Ísak Bergmann Jóhannesson í leik með íslenska A-landsliðinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ísak Bergmann Jóhannesson þakkaði traustið í byrjunarliði FC Kaupmannahafnar þegar hann skoraði bæði mörk liðsins í 2:1-sigri á Silkeborg í dönsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld.

Ísak kom heimamönnum í Kaupmannahöfn yfir strax á annarri mínútu og tvöfaldaði svo forystuna eftir rétt tæplega klukkutíma leik.

Hann fór svo af velli á 68. mínútu og skömmu síðar, á 75. mínútu, minnkaði Silkeborg muninn.

Nær komust gestirnir þó ekki og Kaupmannahöfn styrkti stöðu sína á toppi deildarinnar með sigrinum. Nú er liðið fjórum stigum fyrir ofan Midtjylland, sem á þó leik til góða.

Fleiri Íslendingar, og raunar Skagamenn tóku þátt í leiknum. Hákon Arnar Haraldsson var einnig í byrjunarliði Kaupmannahafnar og var tekinn af velli á 85. mínútu.

Þá kom Stefán Teitur Þórðarson inn á sem varamaður í hálfleik fyrir Silkeborg.

Andri Fannar Baldursson var ekki í leikmannahópi Kaupmannahafnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert