Sjálfseignarstofnunin Hannesarholt hefur haldið úti menningarsetri í sögufrægu húsi Hannesar Hafstein frá árinu 2013. Fjármagn stofnunarinnar hefur verið á þrotum og ekki hægt að halda henni gangandi lengur. Hefði stofnunin hins vegar verið einkahlutafélag rekið í hagnaðarskyni hefði Hannesarholt átt rétt á svokölluðum Covid-styrk upp á tuttugu milljónir.
Eins og fram kom í frétt Morgunblaðsins í síðasta mánuði kölluðu margir eftir því að setrinu yrði áfram haldið opnu og hafa birst greinar þar sem er biðlað til stjórnvalda að bjarga rekstrinum.
Starfsfólki hefur verið sagt upp á síðustu dögum og var skellt í lás í gærkvöldi, að óbreyttu til frambúðar.
„Þetta er mjög mikill missir fyrir íslenska tónlistarmenn,“ segir Hallveig Rúnarsdóttir, formaður Félags íslenskra tónlistarmanna.
„Þetta er mjög hentug stærð af sal, þarna hefur verið tekið gríðarlega vel á móti okkur og við fengið góða samninga. Salurinn er sérhannaður fyrir klassíska tónlist þannig að missirinn er ekki síst hjá klassísku tónlistarfólki.“
„Mér finnst að það mætti huga að þessum stöðum þar sem klassísk tónlist hefur verið í fyrirrúmi þegar til dæmis úrbótasjóður tónlistarstaða í Reykjavík veitir styrki,“ segir hún.
Hún segir að ekki sé salur sem geti tekið við af Hannesarholti. „Við tónlistarmenn verðum að horfast í augu við það að það er næstum óvinnandi vegur fyrir fólk að halda sjálfstæða tónleika, sem getur verið ofboðsleg fjárhagsleg áhætta.“
Þá segir hún leiguna á öðrum sölum oft vera út úr öllu korti, þar á meðal leiga á sölum í Hörpu. „Fyrir tónlistarmenn sem þora ekki að taka áhættuna á því að það seljist ekki miðar, þá er fólk kannski að lenda í því að þurfa að borga stórfé með tónleikahaldi.“