Ósló og Bergen banna TikTok

Ráðhús Óslóar handan við herfylki rafhlaupahjóla. Borgin biður nú alla …
Ráðhús Óslóar handan við herfylki rafhlaupahjóla. Borgin biður nú alla 54.000 starfsmenn sína og Bergen sína 20.000 að nota ekki snjallsímaforritið TikTok í vinnutækjum. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Sveitarfélagið Bergen í Noregi hefur nú gefið starfsmönnum sínum, 20.000 talsins, fyrirmæli um að fjarlægja snjallsímaforritið umdeilda, TikTok, úr öllum símum sem starfsfólkið hefur fengið úthlutað úr hendi vinnuveitanda. Gildir þetta einnig um forritið Telegram, sem runnið er undan rifjum rússneska milljarðamæringsins Pavel Durov, og er hvort tveggja bannið sprottið af ótta við að trúnaðargögn og -upplýsingar hafni í röngum höndum.

Eins nær TikTok-bannið yfir einkasíma starfsfólksins sé það með vinnutölvupóst sinn tengdan við símann og er fólk beðið að hafa aðeins annað tveggja í símanum, vinnupóst sinn eða téð samskiptaforrit. TikTok er í eigu kínverska fyrirtækisins ByteDance.

Dómsmálaráðuneyti Noregs sendi út boð sama efnis á þriðjudaginn í kjölfar þess er norska þjóðaröryggisstofnunin NSM komst að þeirri niðurstöðu að miðillinn kínverski, TikTok, byði hættunni á njósnum og óæskilegum gagnalekum heim.

Í dag gaf svo Bergen út það sama og í kjölfarið höfuðborgin Ósló og Stórþingið auk fjarskiptarisans Telenor og norska ríkisútvarpið NRK kveðst heyra af fleiri vinnustöðum, opinberum sem í einkageira, sem boði TikTok-bann.

Umfangsmikil upplýsingasöfnun

NRK ræddi í febrúar við Gaute Wangen, dósent við Tækniháskólann í Þrándheimi, sem útskýrði þá hvernig TikTok safnaði upplýsingum um notendur sína gegnum texta sem þeir rita, staðsetningu þeirra, tungumál og jafnvel andlitsfall. Telegram er ekki talið eins ágengt og kínverski miðillinn en engu að síður hafa spurningar vaknað um hvort þar fari úlfur í sauðargæru.

Einar Wilhelmsen, borgarfulltrúi í Ósló, sem sent hefur erindi um málið í alla króka og kima sveitarfélagsins með beiðni til starfsfólks um að nota ekki forritin tvö, kveðst í samtali við NRK gleðjast yfir úrskurði NSM sem er ekki fyrsta tilefnið sem þaðan berst til aðgerða Norðmanna gegn Kínverjum:

„Þetta hefur verið rætt hér [hjá borginni] og það er eðlilegt að við fylgjum ráðum öryggisyfirvalda. Í samræmi við mat NSM ráðum við því öllu okkar starfsfólki frá því að hlaða TikTok eða Telegram niður í þjónustusíma sína eða önnur vinnutengd tæki,“ segir borgarfulltrúinn en þess má geta að hjá Óslóarborg störfuðu 54.147 manns í september í fyrra.

Julie Hæhre, upplýsingafulltrúi Telenor, stærsta fjarskiptafyrirtækis Noregs, segir eigið áhættumat fyrirtækisins hafa skilað þeirri niðurstöðu að TikTok í tækjum með aðgang að innri kerfum fyrirtækisins hafi í för með sér umtalsverða áhættu hvað gagnaöryggi snerti.

Eins og mbl.is greindi frá fyrr í dag kom Shou Zi Chew, forstjóri ByteDance, fyrir bandaríska þingnefnd í dag og sór af sér. Kvað hann fyrirtækið engin tengsl hafa við kínversk stjórnvöld en ætla má að seint sé í rassinn gripið miðað við þá bannfæringu sem nú fer um fyrirtæki og stofnanir á Vesturlöndum.

NRK

NRKII (rætt við Gaute Wangen dósent)

NRKIII (norska dómsmálaráðuneytið bannfærir TikTok)

TV2

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert