Reddum málinu, vinnustaðakeppni þar sem fyrirtæki og stofnanir keppast við að lesa texta í gegnum tölvu eða snjalltæki, lauk sl. þriðjudag. Í keppninni lásu starfsmenn fyrirtækja og stofnana stuttar setningar á íslensku inn í gagnagrunn Samróms en þær verða notaðar við þróun máltæknilausna, til að tryggja að tæki og tölvur skilji íslensku. Keppnin var samstarfsverkefni Almannaróms - Miðstöðvar máltækni, Háskólans í Reykjavík og Símans.

Keppt var í þremur flokkum, eftir stærð vinnustaða og verðlaun veitt fyrir þrjú efstu sætin í hverjum flokki. Í flokki stórra vinnustaða bar Advania sigur úr býtum, í flokki meðalstórra var ELKO hlutskarpast og loks féllu sigurverðlaunin í hópi lítilla fyrirtækja til Menntaskólans á Tröllaskaga. Voru vinnustaðirnir verðlaunaðir við hátíðlega athöfn á Bessastöðum og sáu forsetahjónin Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid um að afhenda sigurlaunin.

Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Almannaróms, kveðst mjög ánægð með þátttökuna í keppninni og segir raddsýnin sem söfnuðust í keppninni vera gulls ígildi. „Samrómur er opið raddagagnasafn sem allir geta nýtt sér til þess að búa til máltæknilausnir, sem sett var á laggirnar af Almannarómi. Tilgangur Reddum málinu var að fá sem fjölbreyttastar raddir inn í gagnagrunninn. Við hugsuðum keppnina eins og átakið Hjólað í vinnuna, sem miðar að því að fá starfsfólk á vinnustöðum til að vinna saman í átt að sameiginlegu markmiði. Söfnunin hefur því ekki bara búið til ómetanlegan gagnagrunn lesinna setninga á íslensku heldur var hún líka skemmtilegt hópefli hjá rúmlega 300 fyrirtækjum um allt land.

Við þurfum mjög fjölbreyttan grunn af röddum frá öllum kynjum, með mismunandi framburði, frá fólki sem er með íslensku sem annað mál, sem og raddir barna og unglinga. Það er mikilvægt að gagnagrunnurinn innihaldi alls konar raddir því við getum ekki boðið upp á máltæknilausnir sem skilja bara sumar raddir eða framburð."

Atvinnulífið lykilhlekkur

Jóhanna Vigdís segir Reddum málinu-vinnustaðakeppnina hluta af áherslum Almannaróms sem snúi að því að vekja athygli atvinnulífsins á þeim máltæknilausnum sem þegar séu aðgengilegar. „Nú þegar er heilmikið til af gagnasöfnum og hugbúnaði inni á vef Almannaróms sem fyrirtæki geta nýtt inn í sínar stafrænu lausnir. Þessi gögn eru bæði fyrirtækjunum sjálfum sem og viðskiptavinum þeirra til hagsbóta," segir hún og bendir á að gögnin og hugbúnaðurinn sem aðgengilegur er inni á heimasíðu Almannaróms sé ókeypis.

Jóhanna Vigdís segir árangursríkast að tækniyfirfærsla lausna, gagna og þekkingar út í samfélagið eigi sér stað í gegnum atvinnulífið. „ Það eru einfaldlega fyrirtækin og stofnanirnar sem þekkja þarfir viðskiptavina sinna best. Ég myndi því vilja leggja áherslu á að næsta máltækniáætlun stjórnvalda innihéldi hvata fyrir atvinnulífið til þess að byggja máltæknilausnir ofan á þá innviði sem þegar hefur verið komið upp í gegnum Almannaróm."

Almannarómur var settur á laggirnar árið 2014 en Jóhanna Vigdís segir að vatnaskil hafi orðið árið 2018 þegar Almannarómur varð að Miðstöð máltækni fyrir íslensku. „Að einhverju leyti má líta á Almannaróm sem sjóð sem fjárfestir í máltæknilausnum og ber jafnframt ábyrgð á framkvæmd máltækniáætlunar stjórnvalda. Á þeim tíma sem er liðinn frá upphafi framkvæmdarinnar hefur verið fjárfest í uppbyggingu innviða fyrir um 1,4 milljarða króna. Við erum að láta smíða innviði fyrir íslenskuna svo hægt sé að nota hana í stafrænum tæknilausnum."

Hún segir helsta markmið Almannaróms vera að vernda íslenska tungu og tryggja framtíð hennar. „Raddstýring og gervigreind er orðin stór þáttur í daglegu lífi fólks og verður enn veigameiri í náinni framtíð. Besta leiðin til að vernda íslenska tungu er að smíða lausnir sem gera okkur kleift að nota hana í samskiptum við og í gegnum tæki. Við erum komin mjög langt á þremur árum en það er mikilvægt að muna að máltækni er ekki verkefni með ákveðinn lokapunkt. Tækninni fleygir hratt fram og við þurfum að sjá til þess að við missum ekki af tæknilestinni."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .