Spánn rótburstaði Þýskaland

Spánverjar fagna sjötta markinu í kvöld en Þjóðverjar eru steinrunnir.
Spánverjar fagna sjötta markinu í kvöld en Þjóðverjar eru steinrunnir. AFP

Spánverjar unnu 6:0-stórsigur á Þýskalandi í Þjóðadeild UEFA í knattspyrnu í kvöld. Með sigrinum enda Spánverjar í efsta sæti riðilsins og fara áfram í úrslit keppninnar á næsta ári. Þjóðverjar enda í öðru sæti.

Álvaro Morata kom heimamönnum yfir áður en Ferrán Torres gerði þrennu og þeir Rodri og Mikel Oyarzabal skorðu eitt mark hvor til að niðurlægja Þjóðverja.

Frakkland vann 3. riðilinn og endaði með 16 stig eftir 4:2-sigur á Svíum í kvöld. Olivier Giroud skoraði í tvígang fyrir heimamenn og Benjamin Pavard og Kingsley Coman hvor sitt markið en Viktor Claesson hafði komið gestunum yfir snemma leiks og Robin Quaison minnkaði muninn í 3:2 skömmu fyrir leikslok. Svíar enda á botni riðilsins og falla niður í B-deildina. Portúgal er í öðru sæti, eftir 3:2-útisigur gegn Króatíu, sem endar í þriðja sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka