Innlent

Gular við­varanir á vestur­hluta landsins

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Veðrið verður verra fyrir vestan í dag.
Veðrið verður verra fyrir vestan í dag. Veðurstofa Íslands

Í dag fer lægð í norðaustur fyrir vestan land. Henni mun fylgja suðvestanátt með hvössum og dimmum éljum, en þurru og björtu veðri austanlands. Búast má við að það taki að lægja í kvöld.

Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar. Þar segir að búast megi við suðvestan kalda eða stinningskalda á morgun, en hægari sunnanlands. Léttskýjað verði á austanverðu landinu á morgun, en annars skýjað og dálítil él fyrriparts, með hita upp á núll til fimm stig.

Hæg suðlæg átt á þriðjudag, með lítilsháttar rigningu eða slyddu á Suður- og Vesturlandi. Um kvöldið fer líklega að snjóa í norðaustan kalda norðan- og austanlands.

Þá eru gular veðurviðvaranir í gildi í Faxaflóa, Breiðafirði, Vestfjörðum og Norðurlandi vestra í dag. Hér má nálgast nánari upplýsingar um veðurviðvaranir dagsins.

Veðurhorfur á landinu næstu daga, samkvæmt Veðurstofu Íslands:

Á mánudag:

Suðvestan 8-13 og dálítil él fram eftir degi, en heldur hægari og bjartviðri um landið A-vert. Hiti 0 til 5 stig.

Á þriðjudag:

Fremur hæg breytileg átt, skýjað og lítilsháttar rigning eða slydda S- og V-lands, hiti 0 til 6 stig. Norðaustan kaldi á N- og A-landi um kvöldið, snjókoma og vægt frost.

Á miðvikudag:

Suðaustlæg átt. Skýjað en þurrt á NA- og A-landi, annars rigning eða slydda með köflum, en dálítil snjókoma NV-til. Frost 0 til 5 stig, en 0 til 5 stiga hiti S- og V-lands.

Á fimmtudag, föstudag og laugardag:

Suðlæg eða breytileg átt, skýjað með köflum og yfirleitt þurrt. Hiti 0 til 6 stig að deginum, en allvíða næturfrost.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×