Una Sighvatsdóttir hefur verið ráðin sem sérfræðingur hjá embætti forseta Íslands að því er RÚV greinir frá.

Eins og Viðskiptablaðið greindi fyrst frá sóttu 188 manns um starfið sem felur í sér í undirbúning og framkvæmd opinberra viðburða á vegum embættisins, aðstoð við ræðuskrif og framsetningu efnis á samfélagsmiðlum auk umsjónar með skráningu, vistun og skilum skjala.

Þá mun verðandi sérfræðingur sinna verkefnum sem tengjast hinni íslensku fálkaorðu, annast samskipti við utanríkisráðuneytið um málefni erlendra sendiherra og ýmis önnur verkefni.

Una er fyrrum fréttamaður hjá Stöð 2 og Morgunblaðinu, en síðustu ár hefur hún starfað fyrir utanríkisþjónustuna í Georgíu á skrifstofu tengilða Atlantshafsbandalagsins, NATO í Tiblisi, og þar áður sem upplýsingafulltrúi NATO í Kabúl.

Una er nú í námi við verkefnastjórnun hjá HR, með mastersgráðu í stjórnmálafræði og stjórnsýslu frá Universitat Pompeu Fabra í Barcelona á Spáni og bachelor gráðu í ensku og bókmenntun frá Háskóla Íslands. Hún fór í skiptinám til Hamline háskóla í Minnesota í Bandaríkjunum meðan á því námi stóð.

„Ég er full tilhlökkunar að takast á við þetta spennandi starf og get varla hugsað mér betra tilefni til að flytja aftur heim til Íslands eftir fjögurra ára búsetu erlendis,“ segir Una.