Aðalmeðferð í bótamáli Frigusar II gegn Lindarhvoli ehf. og íslenska ríkinu fór fram í vikunni í Héraðsdómi Reykjavíkur. Á miðvikudagsmorgun gáfu Steinar Þór Guðgeirsson, lögmaður Lindarhvols og íslenska ríkisins, og Sigurður Valtýsson, fyrirsvarsmaður Frigusar, skýrslu sem vitni.

Málið á rætur að rekja aftur til ársins 2016 þegar Lindarhvoll seldi hlut ríkisins í Klakka, áður Exista. Það var svo í september árið 2020 sem Frigus II, sem er er í eigu Sigurðar Valtýssonar, og Ágústs og Lýðs Guðmundssonar, kenndir við Bakkavör, stefndi Lindarhvoli og íslenska ríkinu og fór fram á 651 milljón króna í bætur þar sem það taldi tilboði hafi verið tekið sem ekki uppfyllt skilyrði útboðsins og að tilboðinu hefði verið breytt eftir á.

Frigus telur að stjórn Lindarhvols hafi hvorki gætt að jafnræði né gagnsæi í söluferlinu á Klakka. Lindarhvoli hafi borist þrjú tilboð í eignina – frá BLM fjárfestingum, Ásaflöt og Kviku, sem bauð fyrir hönd Frigusar. Lindarhvoll hafi ákveðið að taka tilboði BLM fjárfestinga sem hljóðaði upp á 505 milljónir króna. Ekki hafi allir bjóðendur setið við sama borð enda hafi eini stjórnarmaður BLM fjárfestinga jafnframt verið forstjóri Klakka og eini stjórnarmaður Ásaflatar verið fjármálastjóri Klakka.

Samkvæmt nauðasamningi hafi átt að birta sex mánaða uppgjör Klakka eigi síðar en 31. ágúst 2016. Aftur á móti hafi það ekki verið gert opinbert fyrr en um miðjan nóvember sama ár, en það hafði legið fyrir 13. október og verið aðgengilegt stjórnendum Klakka . Jafnræðis hafi því ekki verið gætt í söluferlinu á Klakka því tveir af þremur bjóðendum hafi haft upplýsingar sem eigendur Frigusar höfðu ekki. „Ég þekkti stöðuna sem almennur kröfuhafi, hafði aðgang að ársreikningi ársins 2015, Deloitte skýrslunni og sex mánaða uppgjöri Lýsingar,“ sagði Sigurður Valtýsson fyrir dómi í gær.

Hann er þeirrar skoðunar að upplýsingar um nafnvirði krafna og nafnvirði hlutafjár hafi ekki verið nægjanlegar til að mynda sér verð. „Þetta eru í raun stórhættulegar upplýsingar fyrir þá sem hefðu getað komið að þessu en hefðu ekki verið kröfuhafar. Þeir hefðu þá einungis haft ársreikning Klakka frá árinu 2015, sem sýndi 18 milljarða í eigið fé. Þegar salan fer fram er búið að greiða út þriðjung eigin fjár félagsins,“ sagði Sigurður sem telur upplýsingagjöf til að gæta að jafnræði og gagnsæi hafa verið verulega ábótavant.

Steinar Þór sagðist ekki geta svarað fyrir hvers vegna söluferlinu hefði ekki verið frestað í ljósi þess að 6 mánaða uppgjörið hefði ekki legið fyrir á réttum tíma, það hafi verið ákvörðun stjórnar Lindarhvols. Sigurður fullyrti fyrir dómnum að ef Frigus hefði haft sex mánaða uppgjör Klakka þá hefði félagið boðið 530 milljónir í stað 501 milljóna í hlut Lindarhvols í Klakka.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í tölublaði Viðskiptablaðsins, sem kom út 26. janúar.