Enski boltinn

Hækkað um tæplega hundrað milljónir punda í verði á hálfu ári

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Chelsea þurfti að teygja sig ansi langt eftir Enzo Fernández.
Chelsea þurfti að teygja sig ansi langt eftir Enzo Fernández. getty/Stefan Matzke

Eftir langar viðræður gekk Chelsea loks frá kaupunum á Enzo Fernández frá Benfica í gær, á lokadegi félagaskiptagluggans. Óhætt er að segja að argentínski heimsmeistarinn hafi hækkað verulega í verði undanfarna mánuði.

Chelsea greiðir Benfica 107 milljónir punda fyrir Fernández sem gerir hann að dýrasta leikmanni í sögu ensku úrvalsdeildarinnar. Hann toppar Jack Grealish sem Manchester City keypti frá Aston Villa fyrir hundrað milljónir punda 2021.

Fáir kunnu deili á Fernández þegar Benfica keypti hann frá River Plate í ágúst í fyrra. Talið er að portúgalska félagið hafi greitt tíu milljónir punda fyrir Argentínumanninn sem hefur þá hækkað um 97 milljónir punda í verði á aðeins hálfu ári. Ávöxtunin er allavega fín fyrir Benfica.

Chelsea var mjög virkt í félagaskiptaglugganum í janúar og keypti leikmenn fyrir samtals 288 milljónir punda. Alls hefur Chelsea eytt 550 milljónum punda í nýja leikmenn síðan Todd Boehly keypti félagið í fyrra.

Fernández átti stóran þátt í því að Argentína varð heimsmeistari í Katar í lok síðasta árs. Hann var valinn besti ungi leikmaður HM.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×