Chelsea og PSG unnu bæði góða sigra á útivelli

Leikmenn Chelsea fagna einu fjögurra marka sinna í kvöld.
Leikmenn Chelsea fagna einu fjögurra marka sinna í kvöld. Dmitry Feoktistov/Getty Images

Tveimur leikjum er nú lokið í Meistaradeild Evrópu. Chelsea vann Krasnodar 4-0 í Rússlandi á sama tíma og Paris Saint-Germain vann 2-0 sigur á Istanbúl Başakşehir í Tyrklandi.

Eftir markalaust jafntefli gegn Sevilla í fyrstu umferð E-riðils þá þurftu gestirnir frá Lundúnum svo sannarlega á þremur stigum að halda. Jorginho fékk gullið tækifæri til að koma Chelsea yfir á 14. mínútu en setti boltann þá í stöngina úr vítaspyrnu.

Það var svo Callum Hudson-Odoi sem kom gestunum yfir undir lok fyrri hálfleiks eftir sendingu Kai Havertz. Var það eina mark fyrri hálfleiks og staðan því 0-1 er flautað var til hálfleiks.

Það tók Chelsea töluverðan tíma að gera út um leikinn en þeir skoruðu tvívegis á þriggja mínútna kafla þegar skammt var til leiksloka. Á 76. mínútu skoraði Timo Werner úr vítaspyrnu og hann lagði svo upp á Hakim Ziyech þremur mínútum síðar.

Það var svo varamaðurinn Christian Pulišić sem skoraði fjórða mark Chelsea í kvöld og þar með sitt fyrsta mark á leiktíðinni. Lokatölur 4-0 Chelsea í vil og lærisveinar Frank Lampard því komnir með fjögur stig úr tveimur leikjum og hafa ekki enn fengið á sig mark.

Moise Kean hetja PSG

PSG tapaði nokkuð óvænt á heimavelli gegn Manchester United í fyrstu umferð H-riðils og varð því að næla í þrjú stig í kvöld. Þau komu með herkjum. Eftir markalausan fyrri hálfleik var það framherjinn Moise Kean – sem er láni frá Everton – sem kom PSG yfir á 64. mínútu eftir sendingu Kylian Mbappé.

Kean gerði svo annað mark sitt og annað mark Frakklandsmeistaranna á 79. mínútu leiksins, aftur var að Mbappé sem lagði upp. Voru þetta fyrstu mörk Kean í Meistaradeildinni.

Fleiri urðu mörkin ekki og lokatölur því 0-2 gestunum í vil. Þar með er fyrsti sigur PSG í Meistaradeild Evrópu á þessu tímabili kominn í hús. Tyrkirnir hafa aftur á móti tapað báðum sínum leikjum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira