Flugvélaþjónustufyrirtækið Aptoz komst í gegnum síðasta ár með tæpan 100 milljóna króna hagnað þrátt fyrir að starfsemi flestra viðskiptavina þeirra hafi að mestu leyti lagst af.

Bragi Baldursson, stjórnarformaður og hönnunarstjóri félagsins, segir ákvörðun um að sérhæfa sig í breytingum á flugvélum hafa orðið félaginu til bjargar. Aptoz var stofnað árið 2017, þá með fimm starfsmenn, en telur tólf í dag í tveimur félögum.

Fyrirtækið sér um breytingar á flugvélum fyrir flugfélög, hönnun fyrir bæði viðgerðarþjónustu og sæta- og tækjabreytingar auk flugleiðsögubúnaðar og fleira. „Við látum smíða fyrir okkur sett, hvort sem það eru vírar eða festingar eða hvað það er, og svo vinnum við teikningarnar og vottum ísetninguna.“

Í fyrra var seinna fyrirtækið stofnað, sem heitir Aptoz Aviation Services. Það félag sinnir flugvélum sem fara á milli leigutaka. „Við sjáum um að yfirfara öll tæknigögn og koma vélunum í gegnum bæði viðhaldsskoðun og breytingar. Við erum með menn á staðnum úti í heimi að sjá til þess að það gangi allt smurt fyrir sig.“

Fengu leyfi hálfu ári á undan öðrum
Eins og gefur að skilja var heimsfaraldurinn og hrun fluggeirans í fyrravor mikill skellur fyrir fyrirtæki sem þjónusta flugfélög. Aptoz tókst hins vegar að komast ágætlega af með því að breyta þjónustuframboði sínu í takt við gjörbreytt ástand.

„Við vorum langfyrstir innan Evrópu að bjóða upp á að taka sæti úr flugvélum og flytja frakt í farþegarýminu,“ segir hann, en fyrirtækið fékk vottorð í desember í fyrra frá Flugöryggisstofnun Evrópu fyrir hönnun þess og breytingar. Þau fyrirtæki sem hafi komið á eftir þeim hafi ekki fengið sín vottorð fyrr en í júlí síðastliðnum.

„Við náðum að halda sjó með þessum breytingum. Hefðum við ekki gert það hefði staðan verið ansi þröng. Versta tímabilið fyrir okkur er í raun þegar allir sigla lygnan sjó og eru hvorki að minnka né stækka. Um leið og það verða miklar hreyfingar og vélar skipta um hendur, hvort sem verið er að vaxa eða minnka, þá eykst vinnan hjá okkur.“

Markvisst haldið sér litlum
„Við höfum markvisst viljað halda okkur litlum. Við viljum vera sveigjanlegir og snöggir og ekki með of mikinn stjórnunar- og stoðkostnað. Það eru bara allir að vinna vinnuna sína og lítið af fundum og tíma sem er sóað,“ segir Bragi.

Verði þeir of stórir geti starfið farið að snúast um stýringar á mannskap. Þeir ráða hins vegar talsvert af undirverktökum og geta því aukið umsvif sín talsvert þannig þegar mikið er af verkefnum. Hann segir félagið hafa haldist samkeppnishæft með þessu móti. „Við finnum svosem alveg fyrir smæðinni stundum þegar við förum í stór verkefni, en í þeim tilfellum höfum við leyst það með undirverktökum.“

Nánar er fjallað um málið í Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri, fylgiriti Viðskiptablaðsins, sem unnið var í samstarfi við Kelduna. Blaðið er opið öllum og er hægt að nálgast pdf-útgáfu hér .