Slysahætta vegna svellbunka við skóla

Svell getur verið mjög hættulegt gangandi vegfarendum og aðstæður eins …
Svell getur verið mjög hættulegt gangandi vegfarendum og aðstæður eins og myndast við mikið frost og þíðu sem frystir aftur eru sérstaklega skæðar. mbl.is/Golli

„Ég fékk fjölmarga pósta í [gærmorgun] vegna hálku og hættulegra aðstæðna á skólalóðum vegna veðursins hérna á höfuðborgarsvæðinu. Foreldrar eru ekki glaðir yfir því að það sé ekki búið að gera viðeigandi ráðstafanir og hafa verulegar áhyggjur af því að börnin þeirra verði fyrir slysum,“ segir Herdís Storgaard, hjúkrunarfræðingur og sérfræðingur í slysavörnum barna.

Herdís segir að nokkrir póstar hafi komið vegna svells við Austurbæjarskóla, en hún hafi heyrt frá foreldrum með börn í skólum víða af höfuðborgarsvæðinu.

„Það skapast hættulegt ástand þegar það er búið að vera viðvarandi frost með snjókomu og svo byrjar að rigna og þíða sem frystir síðan aftur og snjóar yfir,“ segir Herdís og bætir við að slysahættur leynist víða.

Herdís rekur góðgerðarfélag sem hefur það hlutverk að fræða foreldra um öryggi barna sinna og þar eru upplýsingar um margt sem lýtur að öryggi barna. „Ég gef mig líka út fyrir það að veita foreldrum ókeypis ráðgjöf og starfa sem sjálfboðaliði í því starfi og geri það með glöðu geði.“

Herdís Storgaard hjúkrunarfræðingur segir mikilvægt að minnka slysahættuna í umhverfinu, …
Herdís Storgaard hjúkrunarfræðingur segir mikilvægt að minnka slysahættuna í umhverfinu, ekki síst vegna barnanna. Ljósmynd/Aðsend

Bera ábyrgð á börnum í skólanum

Hún segist fá mjög mikið af ábendingum um alls konar hluti sem betur mætti fara þegar kemur að börnum og bendir t.d. á að ekki sé alltaf farið eftir reglugerðum um öryggi á leiksvæðum, bæði hvað varðar viðhald tækja og jafnvel hönnun tækjanna sem geti boðið upp á slysahættu.

„Eins og nýlegt dæmi frá Akureyri þar sem leiktæki tókst á loft af því að þar var ekki farið eftir gildandi stöðlum og margt, margt fleira.“ Hún segir þó vanta betri vettvang fyrir þessar ábendingar og margir foreldrar hreinlega gefist upp því ekki sé á þá hlustað.

„Ég skil ekki af hverju þetta þarf að vera svona. Þegar ég var hér opinber starfsmaður hjá ríkinu og sá um verkefni um slysavarnir barna þá skrifaði ég Öryggishandbók fyrir grunn- og leikskóla um hvaða atriði það eru sem þeir þurfa að uppfylla þegar kemur að öryggi barna, því þeir bera ábyrgð á öryggi barnanna meðan á skólastarfi stendur. Öryggishandbókin er með reglugerðar- og lagastoð og ég skil ekki af hverju í ósköpunum er ekki farið eftir þessu,“ segir Herdís. 

Skólarnir þurfa stuðning

„Þar sem ég er hjúkrunarfræðingur og sérfræðingur í slysavörnum barna finnst mér þetta ástand endurspegla ástandið á öryggi barna á Íslandi. Starfið mitt var lagt niður árið 2006 og ég var með puttana á púlsinum allan tímann. 

Ég var í stöðugu sambandi við skólana og að minna þá á ýmis atriði því ég hef fullan skilning á því að það er ekki auðvelt að vera skólastjóri og þurfa að bera velferð barna, á mjög víðum grundvelli, fyrir brjósti alla daga. Þeir þurfa að passa upp á ofbeldi, einelti, eru börnin nærð, hafa þau sofið, eru þau veik?“

Innflæðisvandi spítalanna

Herdís segir það miður að enginn sinni þessu starfi í dag, því það þurfi sárlega að uppfæra allar þær  leiðbeiningar og þá kortlagningu sem hún hafi gert á sínum tíma um slysahættur. Hún segist hafa talað við barnamálaráðherra og gert grein fyrir stöðu máli en samt hafi ekkert gerst og áhuginn virðist lítill á því að fá þessa þekkingu inn í ráðuneytin. 

„Á meðan bitnar þetta á börnunum. Síðan skýtur það skökku við í allri þessari umræðu um álagið á heilbrigðiskerfinu að það sé ekki farið í það með fullum þunga að reyna að minnka líkurnar á slysum úr um allt samfélagið, ekki bara hjá börnum heldur öllum. Ef einhvern tíma var þörf, er nú nauðsyn,“  segir Herdís og segir tíma til kominn til að tala frekar um innflæðisvanda á sjúkrahúsunum í stað þess að tala stöðugt um fráflæðisvandann.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka