Forsætisráðherrann ætlar ekki að segja af sér

Forsætisráðherrann kveðst ekki ætla að segja sig frá embættinu þrátt …
Forsætisráðherrann kveðst ekki ætla að segja sig frá embættinu þrátt fyrir ásakanir gegn eiginkonunni. AFP

Forsætisráðherra Spánar, Pedro Sánchez, hyggst ekki segja sig frá embættinu vegna ásakana um spillingu á hendur eiginkonu hans. 

„Ég hef ákveðið að vera áfram,“ sagði Sánchez í ávarpi í dag en hann hefur verið við völd frá árinu 2018.

Miklar vangaveltur hafa verið uppi um framtíð hans í embættinu en hann hefur ekki sinnt hefðbundnum störfum síðustu fimm daga til að íhuga stöðu sína sem forsætisráðherra.

Kvaðst Sánchez hafa nýtt síðustu daga til ígrundunar á vaxandi skautun í stjórnmálum, sem hann sagði í auknum mæli stjórnast af upplýsingaóreiðu.

Ein ásökunin þegar reynst röng

Tilkynnti hann í síðustu viku að hann hygðist íhuga afsögn sína í kjölfar ákvörðunar dómara um að hefja rannsókn á fyrirtæki eiginkonu hans, Begoñu Gó­mez, eftir að samtökin Manos Limpias ásökuðu hana um að nýta sér stöðu sína til hagsbóta fyrir fyrirtækið.

Manos Limp­i­as, sem þýðist sem Hreinar hendur, eru sögð hafa tengsl við öfga­kennda þjóðern­is­sinnahópa og hefur Sánchez kallað ásakanirnar eineltisherferð á vegum hægrisinnaðra fjölmiðla.

Á fimmtudag krafðist ríkissaksóknari í Madríd þess að rannsókninni yrði hætt vegna skorts á sönnunargögnum. Viðurkenndu Manos Limpias einnig að ásakanirnar gætu verið rangar þar sem þær væru byggðar á netfréttum sem samtökin gætu ekki staðfest, en ein ásökunin hefur þegar reynst röng.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert