Koepka tekur þátt á LIV-mótaröðinni

Brooks Koepka segir skilið við PGA-mótaröðina og færir sig yfir …
Brooks Koepka segir skilið við PGA-mótaröðina og færir sig yfir í LIV-mótaröðina. AFP/Rob Carr

Bandaríski kylfingurinn Brooks Koepka mun segja sig úr PGA-mótaröðinni í golfi til þess að taka fremur þátt í LIV-mótaröðinni umdeildu, sem sádi-arabísk stjórnvöld standa að baki.

BBC Sport greinir frá.

Koepka, sem er í 19. sæti heimslistans, tók þátt á Opna bandaríska meistaramótinu, sem er eitt af stærstu mótunum sem eru hluti af PGA-mótaröðinni, um síðustu helgi.

Helgina áður fór fyrsta mót LIV-mótaraðarinnar fram í Lundúnum. Koepka tók ekki þátt á því en hefur tekið ákvörðun um að söðla um og taka þátt á öðru móti mótaraðarinnar, sem fer fram í Portland í Oregon-fylki í Bandaríkjunum dagana 30. júní til 2. júlí.

Koepka, sem er 32 ára gamall, hefur unnið fjögur risamót á ferli sínum; Opna bandaríska í tvígang og PGA-meistaramótið í tvígang, auk þess sem hann hefur keppt fyrir hönd Bandaríkjanna í Ryder-bikarnum og var hluti af liðinu sem vann mótið á síðasta ári.

Hinn mexíkóski Abraham Ancer, sem er númer 20 á heimslistanum, hefur einnig tekið ákvörðun um að taka þátt í LIV-mótaröðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert