Fótbolti

Bellingham kærður til lögreglu fyrir ummæli sín

Sigurður Orri Kristjánsson skrifar
Jude Bellingham í leiknum í gær
Jude Bellingham í leiknum í gær Joosep Martinson/Getty Images

Englendingurinn Jude Bellingham gæti verið kominn í enn frekari vandræði eftir að hafa gagnrýnt dómarann í leik Bayern Munchen og Borussia Dortmund heldur harðlega eftir leik. Bellingham gaf það í skyn að dómarinn væri með óhreint mjöl í pokahorninu.

Bellingham benti á í viðtali eftir leik að dómari leiksins hefði verið tekinn fyrir að hagræða úrslitum fyrir um það bil fimmtán árum síðan. Þess vegna væri ekki hægt að treysta honum til þess að dæma stórleik eins og þann sem fram fór í gær. Bayern Munchen vann leikinn 3-2 og skoraði Robert Lewandowski sigurmarkið úr vítaspyrnu.

Svo gæti farið að ummæli Bellingham um að Felix Zwayer, dómarinn sem dæmdi stórleikinn í gær væri ekki allur þar sem hann væri séður, myndu draga dilk á eftir sér. Nú hefur komið í ljós að hann hefur verið kærður til lögreglu.

Það er þýska blaðið Bild sem segir frá þessu. Greint er frá því að starfsmaður dómarasamtakana, Marco Haase, sé búinn að kæra ummælin til héraðslögreglunnar á svæðinu. Í raun er verið að kæra Bellingham fyrir meiðyrði sem eru til þess fallin að skaða starfsframa dómarans. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×