Skilur vel útflutningsbann Ítala

Forsætisráðherra Ástralíu, Scott Morrison, og landlæknir landsins, Paul Kelly, fagna …
Forsætisráðherra Ástralíu, Scott Morrison, og landlæknir landsins, Paul Kelly, fagna eftir að hafa verið bólusettir. AFP

Forsætisráðherra Ástralíu vill ekki gera mikið úr áhrifum þess að Ítalir hafi ákveðið að stöðva útflutning á 250 þúsund skömmtum af bóluefni AstraZeneca til Ástralíu.

Scott Morrison segir að ákvörðunin sé skiljanleg og muni ekki hafa áhrif á bólusetningaráætlun Ástrala. Ekki hafi verið gert ráð fyrir þessari sendingu í áætlun landsins þannig að bólusetningar halda áfram eins gert var ráð fyrir.

Ítölsk stjórnvöld segja útflutningsbannið nauðsynlegt vegna skorts á bóluefni í Evrópu þar sem kórónuveiran geisar nánast stjórnlaust. Aftur á móti séu nánast engin virk smit í Ástralíu.

Morrison segist finna til með Ítölum vegna stöðunnar þar vegna Covid-19. „Á Ítalíu deyja um 300 einstaklingar á dag og ég get svo sannarlega skilið þann mikla kvíða sem ríkir á Ítalíu sem og í mörgum ríkjum í Evrópu.“

Að sögn Morrisons geisar faraldurinn óhindrað víða í Evrópu en staðan sé allt önnur í Ástralíu. Landlæknir Ástralíu, Paul Kelly, talar á svipuðum nótum og vísar til þess að systir hans búi á Ítalíu og þar greinist um 18 þúsund ný smit á hverjum degi. 

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur harðlega gagnrýnt AstraZeneca, sem er enskt-sænskt fyrirtæki, fyrir að hafa aðeins afhent brot af því bóluefni sem fyrirtækið hafi heitið sambandinu. Einhverjir telja aftur á móti að ákvörðun Ítala sé eins konar bóluefnaþjóðernishyggja, en Morrison segir að það sé ekki rétt. Nú þegar hafi mikið magn af bóluefni verið flutt út frá ríkjum ESB.

AFP

Ástralía hefur þegar fengið afhenta 300 þúsund skammta af AstraZeneca-bóluefninu og var í dag byrjað að bólusetja framlínustarfsmenn með því. Bóluefnið sem og það sem til er frá Pfizer í Ástralíu er talið nægja þangað til innlend framleiðsla verður komin í gagnið í lok mánaðar.

Lyfjafyrirtækið CSL er að framleiða bóluefni AstraZeneca í Ástralíu en bóluefni sem CSL var að þróa náði ekki í gegnum klínískar rannsóknir. Alls verða um 50 milljónir skammta framleiddar í Ástralíu. Í fyrstu verða afhentir milljón skammtar af bóluefni á viku. Þrátt fyrir að Ástralía fari seinna af stað en flest ríki þegar kemur að bólusetningum er gert ráð fyrir að búið verði að bólusetja meirihluta fullorðinna í lok október. Alls eru íbúar Ástralíu 25 milljónir og hafa greinst þar rúmlega 25 þúsund kórónuveirusmit frá því faraldurinn braust út og um 900 hafa látist. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert