Fjórtán ára reynt að stofna Onlyfans-reikninga

Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir, talskona Stígamóta.
Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir, talskona Stígamóta. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þunglyndi, kvíði, sektarkennd, átraskanir og sjálfsskaði eru á meðal þeirra andlegu afleiðinga sem fólk lýsir sem kemur til Stígamóta eftir að hafa selt kynlífsþjónustu.

Þetta sagði Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir, talskona Stígamóta, í Kastljósinu í kvöld.

Hún sagði að til að byrja með upplifi sumir kynlífsþjónustu sem valdeflingu, meðal annars vegna peninganna sem eru í boði, en þegar þeir koma til Stígamóta sé afleiðingarnar aðrar, þar á meðal tilfinningalegur doði eftir reynsluna sem þeir hafa gengið í gegnum.

Spurð hvort hægt sé að selja kynlífsþjónustu án ofbeldis eða að farið sé yfir mörk kvaðst hún ekki geta fullyrt að það sé ekki hægt en þau hjá Stígamótum hafi aldrei séð dæmi um slíkt.

Steinunn sagði fólk oft byrja í kynlífsþjónustu með ákveðin mörk en síðan finni það fyrir stöðugri pressu um að gera meira til að viðhalda kúnnunum og þóknast öllum. „Í lokin er fólk yfirleitt búið að fara langt út fyrir alla þá ramma sem það sér fyrir sér í upphafi.“

Steinunn Gyðju- og Guðjónsdóttir í Kastljósi í kvöld.
Steinunn Gyðju- og Guðjónsdóttir í Kastljósi í kvöld. Skjáskot úr Kastljósi

Foreldrar stoppa börnin sín af 

Steinunn sagði að ungt fólk sem íhugar að stíga inn í þennan heim þurfi fyrst að fá upplýsingar um andlegu afleiðingarnar sem geti fylgt því. Hún sagði foreldra hafa stoppað krakkana sína, allt niður í 14 ára, sem hafa gert tilraunir til að stofna Onlyfans-reikninga. Oft séu þetta krakkar sem séu á jaðrinum og þurfi á miklum stuðningi að halda. „Þeir upplifa þetta sem jákvæða athygli en eru útsettastir fyrir því að verða fyrir slæmum afleiðingum,“ sagði hún og hvatti foreldra til að upplýsa börnin sín um þennan heim.

Klara Sif í Kastljósi.
Klara Sif í Kastljósi. Skjáskot úr Kastljósi

Spurð af stúlkum undir lögaldri

Í þættinum var einnig rætt við Klöru Sif Magnúsdóttur, sem selur kynlífsþjónustu á Onlyfans. Hún sagði fólk kaupa hjá henni mánaðaráskrift fyrir 20 dollara og ef það vill sjá meira borgar það aukalega í sérstökum skilaboðum.

Spurð hvort hún hafi ekki áhyggjur af því að börn sem eru á öðrum samfélagsmiðlum eins og TikTok þar sem hún er líka að tjá sig leiðist út í þetta og ráði ekki við, sagðist hún hafa hugsað út í það. Hún sagði stelpur undir lögaldri hafa spurt hana út í Onlyfans og að hún segi þeim alltaf að þær þurfi að passa sig og að þetta sé ekki fyrir alla. Vinnan sé mikil og erfitt sé að „viðhalda þessu og græða almennilegan pening“. Þær verði að taka þessa ákvörðun þegar þær séu komnar með aldur til þess. Þetta sé ekki dans á rósum.

Klara sagðist samt ekki vilja bera alla ábyrgðina sjálf þegar kemur að börnum heldur eigi foreldrarnir að fræða þau eftir bestu getu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert