Smitið mjög óheppilegt

Roberto Martinez á hliðarlínunni.
Roberto Martinez á hliðarlínunni. AFP

Roberto Martinez þjálfari belgíska karlalandsliðsins í fótbolta ræddi við blaðamenn á Laugardalsvelli í kvöld. Belgía og Ísland eigast við í Þjóðadeild UEFA annað kvöld og verður íslenska liðið án Eriks Hamréns og Freys Alexanderssonar þjálfara vegna kórónuveirusmits innan íslenska teymisins. Spánverjinn segir það óheppilegt.

„Þetta er mjög óheppilegt. Þú vilt að allir fái að njóta leiksins og fá að vera með leikmönnum. Landsliðsþjálfarar fá ekki langan tíma með leikmönnum á hverju ári og þetta er mjög óheppilegt. Við óskum öllum þeim sem smituðust góðs bata og vonandi fara þeir í gegnum þetta einkennalausir.“

Marga mikilvæga leikmenn vantar í íslenska liðið og þá hefur Belgía unnið þrjá sannfærandi sigra á íslenska liðinu á síðustu tveimur árum með markatölunni 10:1. Martínez á samt sem áður von á erfiðum leik þar sem einnig vantar leikmenn í hans lið. 

„Það er ekkert sem heitir auðveldur sigur. Það vantar lykilmenn í íslenska liðið en það er eðlilegt þegar það eru þrír leikir á skömmum tíma. Okkur vantar líka fimm mikilvæga leikmenn; Thibaut Courtois, Eden Hazard, Kevin De Bruyne, Thorgan Hazard og Dries Mertens. Við einbeitum okkur frekar að þeim leikmönnum sem við erum með hérna,“ sagði sá spænski.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert