Spánverjar sluppu naumlega í undanúrslitin

Spánverjinn Agustin Casado reynir að komast framhjá Pólverjanum Dawid Dawydzik …
Spánverjinn Agustin Casado reynir að komast framhjá Pólverjanum Dawid Dawydzik í leiknum í dag. AFP

Spánverjar eru komnir í undanúrslitin á Evrópumóti karla í handknattleik í sjötta skiptið í röð eftir sigur á Pólverjum í lokaumferð milliriðils tvö í Bratislava í dag, 28:27.

Evrópumeistararnir 2018 og 2020 voru þó alls ekki sannfærandi gegn neðsta liði riðilsins og leikurinn var jafn allan tímann. Spánverjar voru yfir í hálfleik, 14:13, og náðu aldrei að hrista pólska liðið af sér í seinni hálfleiknum.

Staðan var 28:27 fyrir Spánverja þegar mínúta var eftir af leiknum. Pólverjar fengu tvö dauðafæri til að jafna í sömu sókninni en Rodrigo Corales varði glæsilega í bæði skiptin og tryggði sínum mönnum sigurinn. Jafntefli hefði dugað Spánverjum en tap hefði þýtt að þeir hefðu þurft að stóla á sigur Norðmanna gegn Svíum í kvöld.

Ferran Sola, Augustin Casado og Aleix Gómez skoruðu 4 mörk hver fyrir Spánverja en Arkadiusz Moryto var markahæstur Pólverja með sex mörk og lýkur þar með keppni sem markahæsti maður mótsins. Það er þó ólíklegt að hann nái markakóngstitlinum því margir keppinautanna fá tvo leiki til að fara fram úr honum.

Spánverjar enda því með 8 stig. Noregur og Svíþjóð eru bæði með 6 stig og leikur þeirra í kvöld er þar með hreinn úrslitaleikur um hvort þeirra fylgir spænska liðinu í undanúrslitin. Pólverjar enduðu í sjötta og neðsta sæti riðilsins með eitt stig.

Norðmönnum dugar jafntefli og ef þeir vinna leikinn, vinna þeir jafnframt riðilinn og mæta liðinu sem verður í öðru sæti í riðli Íslands. Ef það verða Svíar sem vinna og fara áfram verða það Spánverjar sem vinna riðilinn.

Þrír mögulegir mótherjar eru fyrir hendi hjá Spánverjum í undanúrslitum, Danir, Frakkar eða Íslendingar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert