Hjálpar til hve vel ég þekki Víkingana

Milos Milojevic þjálfar sænsku meistarana Malmö.
Milos Milojevic þjálfar sænsku meistarana Malmö. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Milos Milojevic, þjálfari sænska liðsins Malmö og fyrrverandi þjálfari Víkings, segir að það sé sínu liði mjög í hag hversu vel hann þekkir til Víkinga eftir að hafa verið leikmaður og síðan þjálfari þeirra um árabil.

Malmö tekur á móti Víkingi í fyrri leik liðanna í fyrstu umferð Meistaradeildar karla í fótbolta annað kvöld en þetta er fyrsti Evrópuleikur liðsins undir stjórn Milosar sem tók við liðinu af Jon Dahl Tomasson í vetur.

„Já, það hjálpar okkur að ég skuli þekkja vel til Víkinga og þýðir að við vitum meira um þá en þeir um okkur. Ég þjálfaði leikmenn eins og Erling Agnarsson, Júlíus Magnússon og Viktor Örlyg Andrason frá því þeir voru tólf ára gamlir og ég spilaði með þeirra reyndasta manni, Halldóri Smára Sigurðssyni, þannig að ég þekki bæði hópinn og félagið mjög vel," sagði Milos á fréttamannafundi hjá Malmö í dag.

„Víkingar munu því ekki koma okkur á óvart í leiknum en þeir munu hinsvegar koma hingað til að berjast upp á líf og dauða fyrir góðum úrslitum. Fyrir okkur skiptir hinsvegar mestu máli að við spilum okkar leik. Ég ber virðingu fyrir öllum mótherjum og við búum okkur vel undir leikinn gegn Víkingi. Við erum sterkari en þeir á pappírunum, en ekkert lið vinnur leik á pappírunum. Við verðum að vera betri í grunnatriðunum, návígjunum og skipulaginu, og spila vel. Þá vinnum við leikinn. Annars verður okkur refsað," sagði Milos Milojevic.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert