Sofnaði í miðjum leik

Mark Williams er sigursæll snókerspilari.
Mark Williams er sigursæll snókerspilari. AFP

Mark Williams frá Wales, þrefaldur heimsmeistari í snóker, hefur beðist afsökunar á því að hafa sofnað í miðjum leik á breska meistaramótinu.

Williams tapaðí fyrir Anthony Hamilton, 6:5, í annarri umferð mótsins í York á sunnudaginn og skýrði frá því eftir leikinn að hann hefði sofnað í stólnum á meðan andstæðingurinn lék en þá var hann yfir í leiknum.

Williams sagði í afsökunarbeiðni sinni að svefnhöfgi sín hefði ekkert haft með leik Hamiltons að gera. „Þetta er í fyrsta sinn sem ég sofna í leik á þrjátíu ára ferli. Staðan var 3:2 og ég sat í stólnum mínum þegar það slokknaði skyndilega á mér. Ég vaknaði við það að ég missti höfuðið niður í bringu og vissi ekkert hvar ég var fyrstu fimm sekúndurnar á eftir. Ég fékk kóvid fyrir nokkrum vikum og er mun betri en verð enn mjög þreyttur," sagði Williams við heimasíðu World Snooker Tour.

Hann keppir væntanlega næst á Opna skoska mótinu. „Þar verða styttri leikir svo ég ætti að geta haldið mér vakandi," sagði Williams í léttum dúr.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert