Frumraun Halldórs á HM gegn heimsmeisturunum

Halldór Jóhann Sigfússon er landsliðsþjálfari Barein.
Halldór Jóhann Sigfússon er landsliðsþjálfari Barein. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Þrír íslenskir þjálfarar stýra liðum sínum í fyrsta leik á heimsmeistaramóti karla í handknattleik í Egyptalandi í dag og í kvöld. 

Alfreð Gíslason og hans menn í þýska landsliðinu mæta Úrúgvæ í A-riðlinum klukkan 17. Þjóðverjar ættu að eiga þægilegan leik fyrir höndum. Lið Úrúgvæ leikur í fyrsta sinn á HM eftir að hafa endað í þriðja sæti í undankeppninni í Suður-Ameríku, á eftir Argentínu og Brasilíu. Hin tvö liðin í riðlinum eru Ungverjaland og Grænhöfðaeyjar og mætast kl. 19.30 í kvöld.

Dagur Sigurðsson stýrir Japönum gegn hinu öfluga liði Króata í C-riðli klukkan 17. Japanska liðið á þar eflaust við ofurefli að etja en Króatar ættu að vinna þennan riðil örugglega. Katar og Angóla eru einnig í C-riðli og mætast kl. 14.30.

Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari Barein, glímir við sjálfa heimsmeistarana, Dani, í kvöld klukkan 19.30, en þetta er fyrsti leikur Halldórs sem þjálfari á stórmóti. Danska liðið ætti að vinna D-riðil keppninnar mjög örugglega en þar eru einnig Argentína og Kongó. Væntanlega stendur baráttan um annað sætið á milli Argentínu og Barein.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka