Gott að ekki fór verr

Brynjar Helgi Ásgeirsson, forstöðumaður í Hlíðarfjalli.
Brynjar Helgi Ásgeirsson, forstöðumaður í Hlíðarfjalli. mbl.is/Þorgeir Baldursson

„Við funduðum á föstudeginum eftir að aðgerðum lauk og í gær hittum við alla starfsmenn sem voru á svæðinu á föstudaginn og tókum skýrslu af hverjum og einum,“ segir Brynjar Helgi Ásgeirsson, forstöðumaður skíðasvæðisins í Hlíðarfjalli á Akureyri en bjarga þurfti skíðafólki úr Fjarkanum, annarri stóla­lyftu skíðasvæðisins, þegar vír fór út af sporinu í hávaðaroki á föstudag.

Ekki var margt um mann­inn í fjall­inu enda veður ekki skap­legt til skíðaiðkun­ar. Nokkr­ir skíðamenn sátu þó fast­ir í lyft­unni um stund áður en starfs­fólki Hlíðarfjalls og viðbragðsaðilum tókst að bjarga fólk­inu niður á fast land.

Um 90 mínútur liðu þar til öllu skíðafólkinu hafði verið …
Um 90 mínútur liðu þar til öllu skíðafólkinu hafði verið bjargað niður úr lyftunni. Ljósmynd/Jörgen Snædal
Fólki var kalt en sýndi aðstæðum skilning og viðbragðsaðilum og …
Fólki var kalt en sýndi aðstæðum skilning og viðbragðsaðilum og starfsfólki þakklæti. Ljósmynd/Jörgen Snædal

„Ég ráðfærði mig meðal annars við kollega minn í Bláfjöllum og komst að því að verklagið þar er nákvæmlega það sama og hjá okkur. Fram undan er fundur með björgunarsveitinni Súlum og þá eigum við eftir að æfa aftur og meira með sveitinni,“ segir Brynjar.

Frá aðgerðum á vettvangi.
Frá aðgerðum á vettvangi. Ljósmynd/Jörgen Snædal
Björgunarsveitin Súlur tók þátt í aðgerðum.
Björgunarsveitin Súlur tók þátt í aðgerðum. Ljósmynd/Jörgen Snædal

En er í lagi með lyftuna? Hafa komið upp einhver vandamál í kjölfarið?

Brynjar segir lyftuna vera í góðu ásigkomulagi en hann sagði skíðasvæðið hafa verið lokað vegna veðurs bæði á laugardag og sunnudag.

„Við vorum búin að loka lyftunni þegar atvikið gerist. Lyftan sjálf gefur alltaf viðvaranir og þær eru skráðar. Það er búið að fara yfir allar viðvaranir og þær voru eðlilegar. Lyftan var keyrð mun hægar í þessum vindi.“

Mikill vindur gerði björgunarsveitarfólki erfitt fyrir.
Mikill vindur gerði björgunarsveitarfólki erfitt fyrir. Ljósmynd/Jörgen Snædal

Brynjar segir hjólin vera með svokallað spor og að vírinn hafi verið kominn af sporinu en ekki af hjólinu sjálfu.

„Um það bil 90 mínútum eftir að atvikið gerist voru allir komnir niður. Við höfum æft þetta en aldrei við þessar aðstæður, þegar vindhraði er um 33 metrar á sekúndu á svæðinu. Við fórum vel yfir þetta og við vorum mjög ánægðir með aðgerðirnar. Það var ekkert óðagot og bæði svæðisstjórar, skíðagæslan og lyftuverðir stóðu sig vel. Það er eflaust eitthvað sem hefði getað farið betur en við lærum af því.“

Hann segir það fyrst og fremst gott að ekki hafi farið verr.

„Við höfum ekki heyrt neina óánægju frá þeim gestum sem lentu í þessu. Okkur hafa meira að segja borist þakkir frá fólki.“

Fundað á vettvangi.
Fundað á vettvangi. Ljósmynd/Jörgen Snædal
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert