Njóta þess að vera með

Snæfríður Sól Jórunnardóttir keppir í 100 og 200 metra skriðsundi …
Snæfríður Sól Jórunnardóttir keppir í 100 og 200 metra skriðsundi í Tókýó. Ljósmynd/Hörður Oddfríðarson

Sundkonan Snæfríður Sól Jórunnardóttir mun taka þátt á sínum fyrstu Ólympíuleikum þegar hún keppir í tveimur greinum, 100 metra skriðsundi og 200 metra skriðsundi, á leikunum í Tókýó í Japan.

Hún fór beint í stórt hlutverk á setningarathöfn leikanna á Ólympíuleikvanginum í gær, en hún og Anton Sveinn McKee voru fánaberar Íslands á athöfninni glæsilegu.

Snæfríður Sól Jórunnardóttir og Anton Sveinn McKee fánaberar Íslands ganga …
Snæfríður Sól Jórunnardóttir og Anton Sveinn McKee fánaberar Íslands ganga inn á Ólympíuleikvanginn á setningarathöfn Ólympíuleikanna í Tókýó í gær. Ljósmynd/Simone Castrovillari

Íslensku keppendurnir voru þriðja sveitin sem gekk inn á leikvanginn, þar sem Ísland er fremst allra þjóða heims í japanska stafrófinu. Grikkir voru að vanda fyrstir og síðan kom sveit flóttamanna en þar á eftir allar hinar þátttökuþjóðirnar í japanskri stafrófsröð.

Snæfríður Sól er tvítug og flutti til Danmerkur með fjölskyldu sinni fyrir um áratug, þegar hún var 11 ára gömul og hefur búið þar í landi allar götur síðan.

Snæfríður Sól hefur tvisvar verið valin sundkona ársins hér á landi, árin 2018 og 2020, og á Íslandsmetin í 200 metra skriðsundi í bæði 25 metra og 50 metra laug. Hefur hún tekið stöðugum framförum á undanförnum árum enda reglulega slegið sín eigin Íslandsmet.

Afrakstur þeirra bætinga er þátttaka á Ólympíuleikum í fyrsta skipti á ferlinum og kveðst Snæfríður Sól spennt fyrir því að fá að upplifa sína fyrstu leika. „Þetta leggst bara mjög vel í mig, ég hlakka mikið til,“ sagði hún í samtali við Morgunblaðið.

Viðtalið við Snæfríði er í heild sinni í Morgunblaðinu í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert