Óheppilegur tími fyrir rafmagnsleysi

Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík.
Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík. mbl.is

Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur, segir í samtali við mbl.is að bilun, sem varð í orkuverinu í Svartsengi fyrr í dag og veldur enn rafmagnsleysi í bænum, eigi ekki rætur að rekja til skjálftavirkninnar sem riðið hefur yfir Reykjanesskagann að undanförnu.

„Þetta tengist í sjálfu sér ekki þessum skjálftum. Tíminn er þó vitaskuld óheppilegur í ljósi aðstæðna,“ segir Fannar og bætir við að unnið sé að viðgerð í verinu.

Fannst skjálftinn sterkari en sá fyrsti

Snarpur skjálfti, 4,1 að stærð, varð undir Fagradalsfjalli um klukkan 11.50 í dag.

„Við fundum ágætlega fyrir honum,“ segir Fannar.

Fleiri skjálftar, 3 að stærð og yfir, urðu í kjölfarið en minna fór fyrir þeim að sögn Fannars.

„Þegar maður er á ferðinni þá finnur maður minna fyrir þessu,“ bætir hann við.

Því var öðruvísi farið í gærkvöldi, þegar skjálfti af stærð 4,2 reið yfir aðeins spölkorn fyrir utan bæinn, eða hálfa vegu á milli bæjarins og fjallsins Þorbjarnar. Mörgum bæjarbúum fannst skjálftinn sterkari en sá sem varð í upphafi hrinunnar fyrir rúmri viku. Sá mældist 5,7 til samanburðar.

„Skjálftinn í gærkvöldi var mjög snarpur því hann var líka svo nálægt okkur,“ segir bæjarstjórinn.

Datt ein stytta

„Hér datt nú bara ein stytta og svo skemmdust nokkrar myndir,“ kveður hann við, spurður hvort skemmdir hafi orðið á munum hans.

„En þetta var misjafnt á milli húsa. Sums staðar fannst hann mjög vel og munir féllu þá úr hillum, en annars staðar varð fólk minna vart við þetta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert