Arnar verður áfram á Akureyri

Arnar Grétarsson verður áfram hjá KA.
Arnar Grétarsson verður áfram hjá KA. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Arnar Grétarsson verður áfram þjálfari karlaliðs KA í knattspyrnu en Akureyrarfélagið tilkynnti á heimasíðu sinni í dag að samningar hefðu tekist þar að lútandi.

Arnar  tók við þjálfun KA-liðsins 15. júlí 2020 en þá voru aðeins fimm umferðir búnar af Íslandsmótinu það ár. KA hafði þá ekki unnið leik en tapaði aðeins einum af þeim þrettán leikjum sem það spilaði þar til Íslandsmótið var blásið af í október.

Í ár hefur KA síðan blandað sér í baráttuna um efstu sætin í deildinni og á fyrir lokaumferðina á morgun möguleika á að ná í Evrópusæti. Vinni KA FH á morgun er þriðja sætið tryggt en það ræðst síðan af úrslitum í bikarkeppninni hvort það nægir til að komast í Evrópukeppni næsta sumar.

Eftirfarandi birtist á vef KA í dag:

Knattspyrnudeild KA og Arnar Grétarsson hafa gengið frá samkomulagi um að Arnar muni áfram stýra liði KA á næstu leiktíð. Arnar sem tók við liðinu um mitt seinasta sumar hefur komið af miklum krafti inn í félagið og lyft öllu starfi okkar upp á hærra plan.

KA liðið situr í 3. sæti Pepsi Max deildarinnar fyrir lokaumferðina sem fer fram á morgun en þá mætir KA liði FH á Greifavellinum á Akureyri og hefst leikurinn 14:00. Sigur í leiknum myndi tryggja næstbesta árangur félagsins í sögunni auk þess sem að þriðja sætið gæti gefið þátttökurétt í Evrópukeppni að ári.

Ekki einungis hefur Arnar leitt árangur liðsins innan vallar, sem verið hefur til fyrirmyndar, heldur hefur hann komið með sína miklu þekkingu á alþjóðlegri knattspyrnu inn í allt starfið í kringum knattspyrnudeild KA. Þannig er allt þjálfarateymið skipulagt til að þroska leikmenn og liðsheild þannig að bæði félagið sem og einstaklingar innan liðanna nái stöðugt að bæta sig.

Arnar Grétarsson á að baki farsælan feril sem leikmaður hér heima, en einnig lék hann lengi vel sem atvinnumaður, bæði á Grikklandi og í Belgíu. Arnar á að baki 71 landsleik fyrir Íslands hönd. Sem þjálfari hefur hann stýrt Breiðablik og KA hér heima og KSV Roeselare í Belgíu auk þess sem hann var yfirmaður knattspyrnumála hjá AEK Aþenu í Grikklandi og Club Brugge í Belgíu.

Það er okkur hjá KA því mikið ánægjuefni að halda Arnari áfram innan okkar raða og hlökkum við svo sannarlega til að halda því samstarfi áfram á næsta tímabili.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert