Ari Guðmundsson, sviðsstjóri hjá Verkís, segir í samtali við fréttastofu að um sex verktakar séu að vinna verkið. „Þetta hefur gengið mjög vel í nótt. Við höfum verið að sækja efnið í Stapafell sem er þarna í nálægð við svæðið. Þetta er í námu vestan Grindavíkurvegar. Þetta voru hátt í fjörutíu starfsmenn sem hafa verið að störfum við þetta í gær og í nótt.“
Ari segir að verið sé að flytja efnið nálægt austurenda varnargarðsins. „Við haugsetjum þar þannig að það verði auðvelt að fara með efnið út í garðinn þegar við fáum leyfi til að byrja.“
Ari segir að verið sé að bíða eftir uppfærðu hættumati. Við erum að fara að vinna að varnargarði fyrir ofan Svartsengi, milli Svartsengi og Sundhnúkagígaraðarinnar þar sem er einn varnargarður sem við viljum byrja á. Og einnig við austurendann á stóra garðinum.“
Hvernig sjáið þið næstu klukkustundir fyrir ykkur?
„Ef við fáum leyfi hjá almannavörunum þá förum við að vinna í garðinum á tveimur stöðum. Við förum í að ýta til efni í garðinum uppi á kantinum, milli Sundhnúkagígaraðarinnar og Svartsengis, og svo förum við að keyra út efni í austasta hluta varnargarðsins, utan á Svartsengi.“
Hver er tímaramminn? Hvað heldurðu að þetta verk taki langan tíma?
„Þetta eru einhverjar vikur. Það hefur verið talað um einhverja þrjátíu, fjörutíu daga. En það er auðvitað margt óljóst í því,“ segir Ari.
Hvað er þetta langur garður?
„Utan um Svartsengi er þetta rétt tæplega fjögurra kílómetra garður, og svo er hann rétt tæplega einn og hálfur kílómetra garður á milli Sundhnúka og Svartsengis.“
Og hvað eru þeir háir?
„Þetta eru sex til átta metra háir garðar. Við byrjum að hafa þá aðeins lægri til að ná línunni og byggjum svo utan á þá hlémegin.“
Alþingi samþykkti skömmu fyrir miðnætti frumvarp forsætisráðherra um vernd mikilvægra innviða á Reykjanesskaga. Greiddu 57 þingmenn atkvæði með frumvarpinu.