Ísland hafnaði í tólfta sæti á HM

Ivan Martinovic og Filip Glavas skoruðu báðir 11 mörk fyrir …
Ivan Martinovic og Filip Glavas skoruðu báðir 11 mörk fyrir Króatíu í kvöld. AFP/Johan Nilsson

Í dag varð það ljóst að Ísland hafnar í tólfta sæti á HM 2023 í handknattleik karla eftir að Króatía hafði betur gegn lærisveinum Arons Kristjánssonar í Barein í milliriðli 4 og Serbía vann Holland í milliriðli 3.

Barein stóð afar vel í Króatíu í fyrri hálfleik enda var staðan 17:16, Króötum í vil, í hálfleik.

Í síðari hálfleik tók Króatía leikinn hins vegar yfir og vann að lokum öruggan 43:32-sigur.

Filip Glavas og Ivan Martinovic voru markahæstir í liði Króatíu, báðir með 11 mörk. Luka Cindric bætti við átta mörkum.

Í liði Barein voru Mohamed Mohamed og Husain Alsayyad markahæstir, báðir með sex mörk.

Króatía er þrátt fyrir sigurinn svo gott sem úr leik í keppninni þar sem liðið þarf að treysta á að Egyptaland vinni Danmörku með 11 mörkum í kvöld svo Danir sitji eftir.

Leikur Serbíu og Hollands var jafn og spennandi allan tímann en hafði Serbía að lokum sigur, 32:30, eftir að hafa siglt fram úr undir blálokin.

Marko Milosavljevic var markahæstur hjá Serbíu með níu mörk.

Hjá Hollandi var Dani Baijens markahæstur með sjö mörk. Skammt undan var Kay Smits með sex mörk.

Liðin fjög­ur sem enda í þriðja sæti mill­iriðlanna fjög­urra raðast í sæti níu til tólf eft­ir ár­angri. Króatía eða Danmörk munu hafna í níunda sæti, Slóvenía hafnar í tíunda sæti, Serbía í því ellefta og Ísland í tólfta sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert