Anton næstbestur og flaug í úrslit á Íslandsmeti

Anton Sveinn McKee á fullri ferð í Íslandsmetsundinu í undanúrslitunum …
Anton Sveinn McKee á fullri ferð í Íslandsmetsundinu í undanúrslitunum í dag. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Anton Sveinn McKee komst í dag í úrslitin í 200 metra bringusundi á heimsmeistaramótinu í 50 metra laug í Búdapest með glæsilegu sundi í undanúrslitunum þar sem hann bætti eigið Íslandsmet og náði næstbesta tíma allra keppenda.

Anton varð annar í öðrum undanúrslitariðlanna á 2:08,74 mínútum en bestur var Zac Stubblety-Cook, Ólympíumeistarinn og heimsmethafinn í greininni frá Ástralíu sem vann riðilinn á 2:06,72 sekúndum.

Anton sló Íslandsmetið sitt í undanrásunum í morgun þegar hann synti á 2:09,69 mínútum. Hann hefur því í dag bætt fyrra metið sem var 2:10,02 mínútur í tvígang.

Þessir átta keppa um heimsmeistaratitilinn í úrslitasundinu annað kvöld og þetta voru tímar þeirra í undanúrslitunum í dag:

2:06,72 Zac Stubblety-Cook, Ástralíu
2:08,74 Anton Sveinn McKee, Íslandi
2:08,75 Yu Hanaguruma, Japan
2:08,84 Erik Persson, Svíþjóð
2:09,04 Matti Mattsson, Finnlandi
2:09,17 Caspar Corbeau, Hollandi
2:09,23 Nic Fink, Bandaríkjunum
2:09,69 Ryuya Mura, Japan

Eins og sjá má hefði Íslandsmetið frá því í morgun þýtt að Anton og Mura hefðu verið jafnir í áttunda og níunda sætinu. Fyrra met Antons sem hann setti í mars hefði aðeins dugað honum í tólfta sætið í undanúrslitunum.

Anton Sveinn McKee í Búdapest.
Anton Sveinn McKee í Búdapest. Ljósmynd/Szilvia Micheller
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert