Hátekjuheimili flest á Seltjarnarnesi

Seltjarnarnes trónir á toppi lista yfir hlutfall heimila í efsta …
Seltjarnarnes trónir á toppi lista yfir hlutfall heimila í efsta tekjufimmtungi eftir sveitarfélögum. mbl.is/Golli

Hlutfall hátekjuheimila hefur lækkað nokkuð í Vestmannaeyjum og á Skagaströnd á árunum 2011 til 2021. Flest hátekjuheimili á Íslandi eru þó enn á Seltjarnarnesi og þar á eftir í Garðabæ, samkvæmt manntali Hagstofunnar í ársbyrjun 2021. 

Þá eru mörg lágtekjuheimili í miðborg Reykjavíkur og á Ásbrú.

Ef heimilum í landinu er skipt upp í jafna tekjufimmtunga með rúmlega 26 þúsund heimilum í hverjum fimmtungi kemur í ljós að ríflega helmingur heimila í neðsta tekjufimmtungi voru heimili með einum einstaklingi. Í efsta tekjufimmtungi voru heimili para með börn hlutfallslega flest og heimili einstæðra foreldra hlutfallslega fæst.

Í efsta tekjufimmtungi eru heimili sem eru með 889 þúsund krónur eða meira á mánuði á neyslueiningu en í neðsta tekjufimmtung falla þeir sem hafa minna en 414 þúsund krónur á mánuði. Miðgildi tekna í efsta tekjufimmtungi var 1,1 milljón króna á mánuði en miðgildi neðsta tekjufimmtungs var tæp 343 þúsund krónur á neyslueiningu, að því er fram kemur á vef Hagstofunnar. 

Taka skal fram að heildartekjur eru samtala atvinnutekna, fjármagnstekna, félagslegra greiðslna, lífeyrisgreiðslna og annarra tekna fyrir skatta næstu 12 mánuði fyrir viðmiðunardag manntalsins.'

Lægsta hlutfallið á Seltjarnarnesi 

Ef tekjur eru skoðaðar út frá landfræðilegri staðsetningu kemur í ljós að hlutfall heimila í neðsta tekjufimmtungi var hæst innan smásvæðis í Reykjanesbæ (42,4%) og tveggja smásvæða í miðborg Reykjavíkur.

Lægst hlutfall heimila í neðsta tekjufimmtungi var á smásvæði á Seltjarnarnesi (8,2%) og Akranesi (8,6%) en þar á eftir voru fjögur smásvæði í Garðabæ.

Hæsta hlutfall í efsta tekjufimmtungi má svo finna á Seltjarnarnesi og í Garðabæ. Lægst hlutfall heimila í efsta tekjufimmtungi var í Þingeyjarsveit og Húnaþingi vestra. 

Árið 2011 voru Skagaströnd og Vestmannaeyjar í þriðja og fjórða sæti á lista yfir hlutfall heimila í efsta tekjufimmtungi eftir sveitarfélögum. Á árunum 2011 til 2021 hefur hlutfallið þar þó lækkað nokkuð eða um 8,1 prósentustig í Vestmannaeyjum, úr 30,2% í 22,1%, og um 7,7 prósentustig á Skagaströnd, úr 30,3% í 22,6%.

Hægt er að sjá nánari útlistun hér að neðan.

Enginn fullorðinn í vinnu á 15% heimila

Full atvinnuþátttaka var á tæpum 62% heimila í landinu, þar sem allir fullorðnir, 18-67 ára, voru skráðir í vinnu samkvæmt manntalinu 2021.

Einn eða fleiri fullorðnir sem ekki voru í vinnu voru á tæplega 24% heimila.

Þá var enginn fullorðinn með vinnu á um 15% heimila.

Hlutfall bíllausra heimila lækkar

Hlutfall einkaheimila með bíl hefur örlítið hækkað frá 2011 til 2021, fór það úr 83,5% í 84,6%. 

Hlutfall heimila með tvo bíla hefur hækkað ögn meira á sama tímabili, eða úr 33% í 37%. Eru þannig rúm 62 þúsund heimili með einn bíl en 48 þúsund með tvo bíla eða fleiri.

Bíllaus heimili voru 20.150, 15,4% af heildarfjölda heimila í landinu og hafði hlutfall þeirra lækkað aðeins frá síðasta manntali þegar bíllaus heimili voru 16,5%.

Hæst hlutfall bíllausra heimila var innan smásvæða í miðborg Reykjavíkur, Hlíðum og Vesturbæ norður (35-42% heimila). Lægst hlutfall bíllausra heimila var í smásvæðum í Mosfellsbæ, Garðabæ og Vesturlandi án Akraness (3,9-4,7%).

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert