„Algjör draumaúrslitaleikur“

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings.
Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari karlaliðs Víkings hlakkar til morgundagsins þegar lið hans tekur á móti uppeldisfélagi hans ÍA í úrslitaleik Mjólkurbikars karla í knattspyrnu. „Þetta leggst alveg ótrúlega vel í okkur. Fyrir mig er þetta náttúrlega algjör drauma úrslitaleikur.“

Bæði lið enduðu Íslandsmótið frábærlega og koma því full sjálfstrausts inn í leikinn.

„Tvö frábær félög og bæði lið áttu ævintýralegan endi á tímabilinu, þeir bjarga sér frá falli og við erum Íslandsmeistarar. Það þýðir að þrátt fyrir að liðin hafi verið á sitthvorum endanum í töflunni þá munu þeir koma inn í leikinn fullir sjálfstrausts. Maður skynjar það alveg að það er smá gorgeir í Skagamönnum, eðlilega, þeir eiga það skilið. Það er gorgeir í okkur líka," sagði Arnar við mbl.is í gær.

„Ég held í fyrsta lagi að þetta verði hörkuleikur, tvö ólík lið að mætast. Líka af því að bæði lið eru með alveg frábæra stuðningsmenn. Ég held að þetta sé draumaúrslitaleikur fyrir fleiri en mig,“ sagði Arnar sem sjálfur er Skagamaður og lék með ÍA og þjálfaði liðið um skeið.

Kári Árnason og Sölvi Geir Ottesen munu á laugardaginn spila sinn síðasta keppnisleik á ferlinum. Arnar segir að menn vilji kveðja þá eins og þeir eiga skilið að vera kvaddir.

„Menn eru líkamlega og andlega þreyttir eftir langt tímabil. Maður skynjaði alveg að það var spennufall eftir úrslitaleikinn við Leikni. Það var eiginlega ágætt að það var ekki leikur strax helgina eftir. Annars eru svo margar gulrætur í þessu fyrir okkur. Í fyrsta lagi getum við unnið tvöfalt, sem fáum liðum hefur tekist að gera og svo er þetta lokaleikur Kára og Sölva. Leikmenn vilja bara kveðja þá almennilega. Þetta eru fullt af gulrótum sem ég get notað til að gíra menn upp, það er að segja ef mönnum finnst bikarúrslitaleikur ekki vera nóg," sagði Arnar.

Margir leikmenn Víkings hafa verið í landsliðsverkefnum undanfarna daga og aðspurður um þá segir Arnar að staðan sé góð. Kwame Quee og Pablo Punyed þurftu að ferðast langt til að komast aftur til Íslands eftir landsleiki með Sierra Leóne og El Salvador.

„Þeir ná þessu. Ég skal alveg viðurkenna að ég grét það ekki að Pablo skyldi bara spila 30 mínútur í þessu verkefni. Það er þá góður möguleiki á því að hann verði vel ferskur í úrslitaleiknum. Það vita allir hversu mikilvægur hann er fyrir okkar lið. Íslensku strákarnir eru heilir og áttu bara frábæra tíma. Spiluðu og æfðu vel í góðu umhverfi svo það var kannski bara fínt að þeir fóru aðeins í burtu og gátu hlaðið batteríin þar," sagði Arnar Gunnlaugsson við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert