„Hundfúlt að fá þetta mark á sig“

Arna Sif Ásgrímsdóttir
Arna Sif Ásgrímsdóttir Ljósmynd/Þórir Tryggvason

„Þetta var þokkalegt af okkar hálfu heilt yfir. Við vorum að spila ágætlega og halda ágætlega í boltann en enn þá langar mig að sjá okkur gera betur,“ sagði Arna Sif Ásgrímsdóttir, fyrirliði Þórs/KA, í samtali við mbl.is eftir 1:1-jafnteflið við Selfoss í úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu í kvöld.

„Ég veit ekki hvort það kemur okkur á óvart að við höfum tíma á boltann eða að andstæðingurinn sé ekki að pressa okkur meira. Mér finnst við þurfa að vera miklu meira kúl og taka leikinn yfir, ekki bíða og sjá hvað þær ætla að gera. Það var aðeins meiri barátta í seinni hálfleiknum og Selfoss var ekki að fá nein færi. Þannig að það er hundfúlt að fá þetta mark á sig. Við þurfum að fara að klára svona leiki,“ sagði Arna enn fremur og bætti við að liðið hafi ekki ætlað sér að sitja og verjast í seinni hálfleiknum.

„Nei, við ræddum það sérstaklega í leikhléinu að við værum ekki komnar hingað til þess að halda þessu í 1:0 í seinni hálfleik. Það er engin forysta, þannig að við ætluðum að koma út og spila okkar bolta. En Selfoss breytti aðeins um kerfi og pressaði okkur meira og ég veit ekki hvort það ruglaði okkur eitthvað. En eigum við þá ekki bara að segja að þetta sé þokkalega sanngjarnt? Auðvitað tökum við punktinn, en ég hefði alltaf viljað taka þrjá hér í kvöld. Þetta er svo þétt í þessari deild að þessi jafntefli gera eiginlega ekkert fyrir mann - en verður maður ekki að virða stigið?“

Selfoss sótti stíft á lokakaflanum og Arna Sif fékk að kenna á því á 75. mínútu þegar hún fékk bylmingsskot frá Brenna Lovera í andlitið og steinlá á eftir. Hún var þó fljót að jafna sig.

„Ég datt kannski út í nokkrar sekúndur. Ég held að þetta hafi verið skot á markið þannig að þetta var fast. Þetta var ekki þægilegt, en það er allt í lagi með mig. Stundum þarf maður að fórna einhverju,“ sagði Arna Sif létt að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert