Vara fólk við að fara út á ísinn

Íshella í höfninni í Hafnarfirði. Varasamt er að fara út …
Íshella í höfninni í Hafnarfirði. Varasamt er að fara út á ísinn, sér í lagi nú þegar örlítið hlýrra er orðið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Veðurstofa Íslands hefur varað fólk við því að fara út á lagnaðarís í höfnum og fjörðum sem kann að hafa myndast vegna kuldans síðustu daga.

„Vegna kulda undanfarið hefur víða myndast lagnaðarís í höfnum og fjörðum. Fólk er eindregið varað við að ganga út á íshelluna, því hún getur verið ótrygg og jafnvel rekið frá landi,“ segir í athugasemd veðurfræðings sem birt var á vef Veðurstofunnar á þriðja tímanum eftir hádegi í dag.

„Það eru komnar íshellur víða í höfnum, fyrir norðan og jafnvel í Hafnarfirði,“ segir veðurfræðingurinn í samtali við mbl.is.

Vorið ekki væntanlegt í bráð

Kveður hann sér í lagi hættulegt að fara út á ísinn núna, þegar dregur örlítið úr frostinu.

„Þá verður þessi ís sem er kominn enn ótryggari og getur brotnað og hrakist frá landi. Ég vil bara vara við því,“ bætir hann við en aftur á að kólna eftir helgi og íshellurnar ekki á förum.

„Við erum ekki að fara að sjá nein langvarandi hlýindi í bráð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka